Ertu að fara að grafa?

Áður en grafið er, er nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn yfir verkefnið og vinnusvæðið. Góður undirbúningur stuðlar að öruggri og árangursríkri framkvæmd.

Veitulagnir í skurði

Strengir 

Strengir eru viðkvæmir fyrir hnjaski og helstu bilanavaldar eru:

  • kápuskemmdir
  • tog í tengingar
  • krappar beygjur

Því er mikil áhersla lögð á að vel sé frá veitulögnum gengið í opnum skurðum. Gæta þarf þess að engar kápuskemmdir verði, ekki sé togað í tengingar og að ekki séu settar of krappar beygjur á strengi.

  • Þegar ganga þarf frá veitulögnum í skurðum til geymslu

    • Festa þarf þær upp í trérennum eða plastpípubútum sem hengdir eru upp í göngubrýr, hæla eða traustar festur minnst hálfan metra frá skurðbrún.
    • Nota skal band sem er minnst 8 mm í þvermál og minnst 10 mm þegar bundnar eru upp vatnsleiðslur.
    • Milli upphengja rafstrengja ætti ekki að vera meira en 3 m þar sem plastpípubútar eru notaðir.
    • Þegar bundnar eru upp þungar vatnslagnir ættu upphengjur að vera með 12 m millibili.
    • Þegar grafið er undan sverum lögnum skal hafa samband við okkur um frágang þeirra til geymslu á framkvæmdatíma.
  • Geymsla veitulagna sem þvera skurði

    • Þar sem veitulagnir þvera skurði þarf að binda þær upp á bita sem þarf að vera því traustari sem skurðurinn er breiðari.
  • Geymsla veitulagna í bognum skurði

    • Þegar gengið er frá veitulögnum í bognum skurðum, og þá sérstaklega rafstrengjum, þarf að binda þær upp með þéttari hælum en í beinum skurði.
    • Ekki má vera meira en 1 m milli hæla.
  • Geymsla veitulagna í lengri tíma skal vera í lokuðum tréstokki

    • Þar sem geyma á veitulagnir ófrágengnar í lengri tíma þarf að ganga frá þeim í lokuðum tréstokk.
    • Gæta þarf sérstaklega að því að leggja sand að lögnum þar sem þær fara inn í stokkinn og að tryggja stöðugleika stokksins með stífum.
    • Ganga þarf sérstaklega frá samningi við Veitur um geymslu veitulagna í tréstokk til langs tíma.
Reikniregla fyrir beygjuradíus strengja

Beygjur á strengjum

Beygjur á strengjum eiga alltaf að vera með stærri beygjuradíus en fimmtánfalt þversnið strengsins. Á myndinni er sýnt hvernig meta má hversu mikið má beygja strengina.

  • Dæmigerður heimtaugarstrengur er um 2 cm í þvermál og beygjuradíusinn má þá vera 30 cm.
  • Dæmigerður notendastrengur er 3,5 cm í þvermál og má beygjuradíus á slíkum streng ekki vera minni en 55 cm.
  • Dæmigerður háspennustrengur er rúmir 6 cm í þvermál og má beygjuradíus á slíkum streng ekki vera minni en 1 m.

Olíustrengir eru mjög viðkvæmir fyrir hnjaski í opnum skurðum og ætti að beygja þá og hreyfa sem allra minnst.

  • Samfelldar plastpípur

    • Í dag eru grennri kaldavatnslagnir lagðar í plastpípum sem soðnar eru saman og þola talsverðan togkraft en ganga ætti frá þeim pípum sem settar eru saman með tengjum á sama hátt og rafstreng í skurðum.

    • Nýjar heimlagnir Veitna, það er heimæðar heits og kalds vatns ásamt rafmagnsheimtaugum, eru lagðar í samfelldum plast ídráttarrörum frá lóðamörkum að húsi.

    • Ljósleiðarar fjarskiptakerfa liggja einnig í jörðu og best að hafa beint samband við þau fyrirtæki fyrir nánari upplýsingar.

  • Seigjárnspípur/Ductile

    • Seigjárnspípur eða ductilepípur eins og þær eru oftast kallaðar eru ekki soðnar saman heldur lagðar í beinum leiðum milli festa. Slíkar pípur má ekki skilja eftir á lofti nema í samráði við Veitur.
    • Þá verður að tryggja að ekki sé grafið frá hornstykkjum og festum þeirra.
    • Þessar lagnir þola sáralítinn togkraft því á samskeytum þeirra eru einungis gúmmíþéttingar.
  • Stálpípur

    • Flestar hitaveitulagnir eru einangraðar stálpípur í plastkápu.
    • Þessar lagnir eru ekki sveigjanlegar og gæta verður þess að reyna ekki of mikið á þær meðan þær eru á lofti.
    • Byggja þarf undir þær þegar búið er að grafa frá þeim.
  • Þveranir strengja

    • Undir akbrautir, innkeyrslur og þar sem við á eru lagðar plastpípur til ídráttar jarðstrengja oftast rauðar að lit.
    • Pípurnar eru 50 mm fyrir granna strengi, 110 mm fyrir svera strengi og 50 mm fyrir ljósleiðara.
    • Mikilvægt er að sanda vel að pípunum og milli þeirra svo þær leggist ekki saman þegar skurður er fylltur.

Frágangur og samsetning á olíustrengjum

Samsetningar olíustrengja eru mjög viðkvæmar fyrir hnjaski. Í skurðum þar sem grafið er frá slíkum samsetningum þarf að losa jarðefni frá þeim og byggja undir þær eða binda upp til að komast hjá áraun á samsetningarnar (tengihólka) og strenginn sjálfa

Hvernig getum við aðstoðað þig?