Ertu að fara að grafa?

Áður en grafið er, er nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn yfir verkefnið og vinnusvæðið. Góður undirbúningur stuðlar að öruggri og árangursríkri framkvæmd.

Áður en grafið er

Undir yfirborði í byggðu landi kvíslast veitulagnir um allt. Eðlilegt álag og hrörnun valda mörgum bilunum á veitulögnum,
en jarðvegsframkvæmdir eru algengasta orsök bilana.
Það er því nauðsynlegt
að hafa góða yfirsýn yfir verkefnið og vinnusvæðið.
Góður undirbúningur stuðlar að öruggri og árangursríkri framkvæmd.

Grafa

Lega veitulagna

Margir vita að algengast er að kaldavatnslagnir liggi með frárennslislögnum á rúmlega eins metra dýpi og hitaveitu, raf- og gagnaveitulagnir liggi saman í skurði á tæplega eins metra dýpi. Þessar upplýsingar eru þó ekki nægjanlegar áður en grafið er.

Tilskilin leyfi og upplýsingar

Áður en jarðvegsframkvæmdir hefjast þurfa framkvæmdaraðilar að afla sér tilskilinna upplýsinga og leyfa fyrir framkvæmdunum. Ef breyta á lögnum þurfa samþykktar teikningar að liggja fyrir.

  • Teikningar af legu veitulagna

    Við jarðvegsframkvæmdir eiga teikningar af legu veitulagna alltaf að vera á verkstað.

    • Umsókn um lagnateikningar: Sækja má um lagnateikningar hér.
    • Skráning: Allar beiðnir um teikningar eru skráðar, meðal annars til að starfsmenn Veitna geti athugað ástand veitulagna með hugsanlega endurnýjun í huga eða verið viðbúnir að veita frekari þjónustu.
    • Hnitasettar lagnir: Hægt er að fá flestar nýrri veitulagnir hnitasettar á teikningum.
    • Dýptarmælingar: Varasamt getur verið að treysta dýptarmælingum fyrir eldri lagnir.
    • Ónákvæmar teikningar: Heimæðar kalds vatns í eigu húseigenda eru oft ekki á teikningum eða lega þeirra ónákvæm.
    • Aðstoð við staðsetningu: Bilanaleitarmenn Veitna aðstoða við að staðsetja lagnir nákvæmlega ef eftir því er leitað.
  • Graftrarleyfi

    • Sækja um leyfi: Við gröft í götu, gangstétt eða á opnu svæði í Reykjavík þarf að sækja um afnotaleyfi hjá Reykjavíkurborg.
    • Tilkynning til veitufyrirtækja: Tilkynna þarf veitufyrirtækjum um gröftinn og skulu teikningar sem sýna legu lagna liggja fyrir áður en gröftur hefst.
    • Verktaki undirritar verkbeiðni: Við afhendingu afnotaleyfis undirritar verktaki verkbeiðni um frágang á yfirborði t.d. götum og gangstéttum ef það á við.
    • Önnur sveitarfélög: Í öðrum sveitarfélögum á veitusvæðum okkar skal sækja um graftrarleyfi til viðkomandi sveitarfélags.

Breytingar á lögnum

Ef framkvæmdaraðili telur að breyta þurfi legu veitulagna vegna framkvæmda sinna, skal hann áður en vinna hefst sækja skriflega um þá breytingu til Veitna. Ef fallist er á að breyta legu lagnarinnar, þá láta Veitur framkvæma verkið eftir að samið hefur verið um kostnaðinn. Meginreglan er að sá sem biður um breytingu greiði kostnaðinn.

Að staðsetja lagnir.

Bilanaleitarmenn okkar eru þjálfaðir í að finna veitulagnir áður en grafið er. Þeir eru með góðan búnað til að hlusta út strengi og pípur eða mæla þá út frá föstum viðmiðum.
Ekki hika við að senda okkur fyrirspurn hér á heimasíðunni okkar eða á netspjallinu.

  • Eftirlitsmenn Veitna

    Vaskur hópur eftirlitsmanna á vegum Veitna hefur eftirlit með því að útboðsverk hennar séu unnin í samræmi við verklýsingar.

    • Aðstoð sérfræðinga: Framkvæmdaraðilar geta nýtt sér aðgang að sérfræðingum okkar til að ræða um legu lagna og lesa úr teikningum.
    • Kalla til bilanaleitarmenn: Eftirlitsmenn kalla til bilanaleitarmenn til að staðsetja lagnir nákvæmlega ef þörf krefur
  • Hættusvæði við rafstrengi - 132 kV aðveitustrengir

    Mikilvægustu og jafnframt hættulegustu rafstrengirnir á veitusvæði okkar eru 132 kV aðveitustrengir. Ef slíkur strengur skaddast hleypur tjónið á milljónum króna auk verulegra óþæginda.

    • Samráð við Veitur: Samráð skal haft við okkur um allar framkvæmdir í námunda við strengina, en legu þeirra má sjá á myndinni að ofan.
    • Nákvæmar upplýsingar: Veitur láta í té nákvæmari upplýsingar um legu strengjanna.
    • Eftirlit: Jarðvinnuverktaki skal láta eftirlitsmann Veitna vita með góðum fyrirvara áður en jarðvinnan hefst og skal vinna verkið undir umsjón hans.
    • Sprengingar og frágangur: Sérstakar reglur eru um sprengingar í námunda við strengina og vinnu jarðvinnutækja t.d. með rippara. Kröfur eru gerðar um vandaðan frágang strengjanna á verktíma í tré eða járnstokk og við lokafrágang.

Mikilvægar gagnaveitulagnir

Í einni gagnaveitulögn geta verið 960 tengingar til fyrirtækja og heimila. Viðgerð á skaddaðri gagnaveitulögn getur tekið nokkra daga. Skemmdir á gagnaveitulögn valda fjárhagslegu tjóni, óþægindum og rekstrartruflunum þeirra sem á veituna treysta.

Varasamar vatnslagnir

Kaldavatnslagnir úr pottjárni voru til langs tíma allsráðandi lagnaefni. Þessar lagnir duga vel en verða mjög stökkar með aldrinum og þola illa hnjask. Því er ástæða til að fara mjög varlega þegar grafið er frá gömlum vatnsleiðslum.

Heitavatnsæðar

Í hitaveituæðum er 70-130°C heitt vatn sem veldur hættulegum húðbruna ef það sprautast á fólk. Algengur þrýstingur í lögnunum er á bilinu 5-8 bör. Það er því rétt að forða sér ef heitt vatn fer að sprautast úr skemmdum rörum.

Hvernig getum við aðstoðað þig?