Ertu að fara að grafa?

Áður en grafið er, er nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn yfir verkefnið og vinnusvæðið. Góður undirbúningur stuðlar að öruggri og árangursríkri framkvæmd.

Meðan grafið er

Þegar grafið er nálægt veitulögnum þarf alltaf að hafa mann í skurðinum með handskóflu en hann á að:

  • Handgrafa niður á lögn eftir að viðvörunarborði, hlíf eða sandlag finnst
  • Skafa ofan af lögn með handskóflu til að sýna stefnuna
  • Vakta aðrar lagnir í skurði
  • Fullmoka frá lögnum og halda þeim frá vélskóflu
  • Staðsetja spindilloka og greiningar úr stofnlögnum
  • Halda til haga hlífum og viðvörunar borðum

Grafa

  • Grafið frá hitalögnum

    • Skófla vélgröfu má aldrei snerta plastkápu lagna því skemmd á kápunni og/eða samskeytum hennar veldur því að vatn eða raki kemst í einangrunina og tærir stálpípuna.
    • Einungis má grafa frá hitaveitulögnum á stuttum kafla.
    • Lagnirnar geta skotist til hliðar (kiknað) vegna þrýstispennu ef grafið er frá þeim á löngum kafla.
    • Þegar grafinn er meira en 3 m kafli frá lögnum sem eru 90-110 mm í þvermál með kápu, er orðin mikil hætta á kiknun.
    • Lagnir 140-160 mm í þvermál með kápu geta kiknað ef grafinn er meira en 5 m kafli frá þeim.
    • Hætta er á kiknun ef grafinn er meira en 10 m kafli frá lögnum sem eru 200-250 mm í þvermál með kápu.
    • Hafið samband við okkur um hvernig standa skuli að því að grafa frá sverari lögnum en 250 mm með kápu
  • Grafið frá kaldavatnslögnum

    • Sumum gerðum kaldavatnslagna er þrýst saman og lagnirnar hafa því mjög takmarkað þol gegn togkröftum.
    • Þeim er haldið saman með festum sem eru ýmist steypuhlunkar eða fastir hlutir svo sem holræsabrunnar.
    • Ef grafið er frá festunum má búast við meiriháttar tjóni.
    • Hafðu samráð við okkur ef þú þarft að grafa frá festum vatnsveitulagna.
    • Starfsmenn okkar munu ráðleggja þér um tilhögun verksins.

Hitaveitustokkar

Eldri stofnlagnir hitaveitna eru stálpípur í steyptum stokkum. Við gröft þarf að gæta þess að slíta ekki stýristreng sem liggur meðfram stokk. Þá er einnig hætta á að skadda þéttiborða á stokkloki og valda leka. Við neðri brún stokks er ræsimöl eða jarðvatnsræsi til að fyrirbyggja að vatn komist í stokkinn. Allar skemmdir skulu tilkynntar Veitum áður en fyllt er að stok

Ótenntar skóflur

Þegar grafið er frá lögnum í skurði má ekki nota tenntar skóflur því þær geta skemmt veitulagnir við minnstu snertingu. Nota skal sléttar skóflur, bestu vitneskju um veitulagnir og fulla athygli við jarðvegsframkvæmdir nálægt veitulögunum. Góða skapið og ánægjuleg samskipti við starfsmenn okkar hjálpa líka.

  • Skurðbakkar og uppgröftur

    • Skipulegðu vel hvar þú leggur uppgröft frá þér.
    • Uppgröftur er varasamur fyrir lagnir sem liggja í opnum skurðum því hann getur fallið niður og skemmt þær.
    • Á sama hátt geta skurðbakkar hrunið og skemmt veitulagnir.
    • Athugaðu að allar slíkar skemmdir eru á ábyrgð framkvæmdaraðila.
    • Það er því mikið í húfi að ganga vel frá uppgreftri og skurðbökkum.
    • Þá getur starfsmönnum í skurði stafað hætta af hruni úr skurðbökkum og frá uppgreftri.

Skemmdir

Vinsamlegast tilkynntu strax um skemmdir sem þú veldur eða finnur á veitulögnum. Ef þú ert ekki viss um hvort veitulögn hafi skemmst hringdu samt í bilanasímann 516 6000 og láttu starfsmenn Veitna dæma um það. Lögnin gæti bilað strax og þú ert búinn að yfirgefa verkstað og hugsanlega búinn að ganga frá yfirborði. Yfirborðsfrágangur og jarðvegsvinna er dýrasti hlutinn við flestar viðgerðir veitulagna.

Hvernig getum við aðstoðað þig?