Ertu að fara að grafa?

Áður en grafið er, er nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn yfir verkefnið og vinnusvæðið. Góður undirbúningur stuðlar að öruggri og árangursríkri framkvæmd.

Frágangur veitulagna

Reglur Veitna um frágang veitulagna eru byggðar á langri reynslu. Frágangurinn á að duga í áratugi og því eru kröfurnar miklar.

Reynslan af vönduðum frágangi er mjög góð og víða eru óskemmdar lagnir eftir meira en hálfa öld í rekstri. Margt óvænt gerist undir yfirborðinu og tekur frágangurinn mið af því. Steinar sökkva í sandinn og sandurinn hripar frá veitulögnum í gljúpt undirlag.

  • Dæmi um háspennustrengi í skurð - Mynd

    Háspennustrengir o

Jarðvinnuþversnið

  • Flest verk eru unnin eftir fyrirfram ákveðnum jarðvinnuþversniðum. Þessi þversnið eru sameiginleg öllum þeim aðilum sem eiga veitulagnir á veitusvæði okkar, sjá dæmi um slík þversnið hér að ofan.
  • Þegar getið er um jarðvinnuþversnið í verkum er ætlast til að nákvæmlega sé farið eftir þeim.
  • Öll stærri verk fyrir Veitur byggja á slíkum sniðum svo það er mjög nauðsynlegt að kunna að lesa úr þeim. Ef vafi leikur á, hvaða þversnið skuli nota, ætti að hafa samband við okkur.

Þar sem Veitur hafa ekki gefið upp jarðvinnuþversnið sem lýsa frágangi veitulagnanna má notast við almennar reglur sem kynntar eru hér á eftir.

  • Dæmi um jarðvinnuþversnið heimlagna - Mynd

    daemi um jardvinnuthversnid heimlagna 600px

Dýpt lagna

Uppgefin dýpt lagna er mæld ofan á lagnir.

Dæmi um jarðvinnuþversnið heimlagna.

  • Raflagnir og hitaveitulagnir eru að öllu jöfnu lagðar á 70 cm dýpi. Háspennustrengir eru þó lagðir á sem næst 90 cm dýpi. 
  • Kaldavatnslagnir eru lagðar á minnst 120 cm dýpi en þó yfirleitt aldrei á meira en 2 m dýpi. 
  • Fjarskiptalagnir Ljósleiðarans eru að öllu jöfnu á 25-40 cm dýpi.

Það kemur fyrir að veitulagnir séu lagðar í annarri dýpt ef landslag eða skipulag krefst þess.

Yfirborð gatna, lóða og opinna svæða getur einnig breyst og því er ekki alltaf hægt að treysta á almennar reglur um dýpt lagna eða uppgefna dýpt á teikningum.

  • Dæmigert jarðvinnuþversnið í götu - Mynd

    daemigert jardvinnuthversnid i gotu 1000px

Upplýsingar um frágang veitulagna

  • Undirlag

    • Þar sem skipt er um jarðveg undir lögnum skal nota frostfrítt efni í undirlag undir þær.
    • Það á að jafna og þjappa undirlag áður en sandað er.
    • Undirlagið þarf að vera svo þétt að sandur hripi ekki niður. Ef hætta er á slíku skal leggja jarðvegsdúk ofan á undirlagið til að hindra það.
    • Dúkurinn skal vera það breiður að hann þeki botn og hliðar sandlagsins, þó aldrei mjórri en 40 cm. Ef jarðvír (ber koparvír) er í skurði á hann að liggja undir eða í undirlagi, sem næst moldarjarðvegi.
  • Söndun

    • Réttur sandur í nægjanlegri þykkt meðfram lögnum tryggir að þær verða ekki fyrir skemmdum á hlífðarkápu af völdum steina eða annarra aðskotahluta.
    • Þá er sandurinn mikilvægur til að finna eldri lagnir þegar grafið er niður á þær.
    • Við söndun þarf að fjarlægja steina sem hafa hrunið ofan í skurðinn við þjöppun og aðra vinnu. Einnig þarf að tryggja gæði sandsins og þykkt sandlagsins.
  • Gæði sands

    • Við gerum kröfur um að sandurinn sem notaður er sé núinn sjávarsandur eða náttúrulegur sandur en hvorki mulningur né skeljasandur.
    • Stærsta leyfilega kornastærð sandsins er 6 mm og skal hann vera án steina með hvössum brúnum.
    • Eftirlitsmenn okkar taka út gæði sandsins sem nota skal, leiki nokkur vafi á gæðunum. Ef þörf krefur látum við rannsaka gæði sandsins nánar.
  • Þykkt sandlags

    • Kröfur um söndun koma fram á jarðvinnuþversniðum. Annars þarf að miða við að sanda 15 cm sandlag undir og 30 cm sandlag yfir vatnslagnir hvort sem þær eru heita eða kaldavatnslagnir.
    • Umhverfis raflagnir skal sandur vera minnst 5 cm á allar hliðar nema minnst 10 cm yfir strengnum.

    • Eftirlitsmenn okkar gefa nákvæm fyrirmæli um söndun sverari æða eða rafstrengja á hærri spennum ef þörf krefur.

  • Fylling í skurði

    • Fylla skal skurði með sams konar efni og fyrir var nema efnisskipta sé krafist.
    • Almennt skal fylla með frostöruggu fyllingarefni, sem skal þjappa í lögum. Þykkt sé eftir aðstæðum og gerð tækja til þjöppunar.
    • Ekki má fylla með sprengdu grjóti eða steinum stærri en 150 mm í þvermál.
  • Bil milli rafstrengja

    • Bil milli lágspennustrengja í skurði skal vera minnst 7 cm og bil milli háspennustrengja minnst 10 cm.
  • Hlífar yfir strengi

    • Allar hlífar sem teknar eru af strengjum þarf að setja á aftur.
    • Á eldri lögnum eru venjulega steyptar íhvolfar hlífar yfir hvern einstakan streng. Þessar hlífar skulu endurlagðar á sama hátt.
    • Á nýlegum lögnum eru venjulega steyptar hellur yfir allt að fjóra strengi saman eða plasthlífar 1420 cm breiðar.
    • Hellur og gular plasthlífar skulu settar 10 cm ofan við lágspennustrengina.
    • Þá skal leggja steyptar hellur eða rauðar plasthlífar 10 cm ofan við háspennustrengina. Stýristreng skal leggja ofan á hlífar háspennustrengja.
  • Aðvörunarborðar

    • Aðvörunarborða skal leggja í fyllingarefni nokkru fyrir ofan hlífar.
    • Aðvörunarborðar fást hjá Veitum.
    • Gæta verður þess að fjarlægja gamla aðvörunarborða sem ekki eiga við svo þeir gefi ekki rangar upplýsingar til þeirra sem seinna kunna að grafa niður á þá.
  • Úttekt

    • Eftirlitsmenn okkar eiga að taka út frágang á veitulögnum áður en fyllt er að þeim. Þeir hafa umboð til að láta lagfæra eða endurvinna verkið ef frágangur er ekki fullnægjandi.
    • Sérstaklega er mikilvægt að tryggja að gengið sé rétt frá tengibrunnum og festum.
    • Eftirlitsmenn taka út eftirtalin atriði:  Undirlag fyrir söndun Frágang á festum Lögn veitulagna Yfirsöndun Lögn hlífa Lögn aðvörunarborða Gæði sandsins og fleira.
  • Innmælingar

    • Starfsmenn okkar mæla inn nýjar, breyttar og áður óinnmældar veitulagnir og senda til innskráningar í Landupplýsingakerfi Veitna.
  • Tengibrunnar

    • Á hitaveitulögnum eru tengibrunnar neðanjarðar. Þegar gengið er frá jarðvegi í nágrenni tengibrunna skal gæta þess að skemma ekki lofttúður þeirra. 
  • Spindlar

    • Á hita og kaldavatnslögnum eru víða lokar með spindilframlengingum svo hægt sé að opna og loka þeim án jarðvegsrasks.
    • Umgerð spindlanna krefst vandaðs frágangs og söndunar til að þeir gegni hlutverki sínu þegar á reynir. Sérstaklega skal gæta þess að lok á spindli lendi rétt í endanlegu yfirborði.
  • Brunahanar

    • Gæta þarf að því að skaða ekki brunahana við frágang annarra veitulagna. Slíkt getur verið mjög afdrifaríkt.
    • Ef grafið hefur verið frá brunahana ætti að fá upplýsingar eða aðstoð starfsmanna Veitna við réttan frágang hans.
  • Gagnaveitulagnir

    • Ljósleiðarinn leggur gagnaveitulagnir í Reykjavík og víðar.
    • Gagnaveitulagnir eru lagðar með nýjum veitulögnum en í eldri hverfum eru gagnaveitulagnir lagðar sérstaklega í grunnum skurðum á heppilegum lagnaleiðum.
    • Lögð eru ídráttarrör á milli brunna og inn í hús og í rörin eru dregnir ljósleiðarastrengir.
    • Frá lóðamörkum og inn í hús fylgja gagnaveitulagnir lagnaleiðum fyrir heitt og kalt vatn, rafmagn og síma.
  • Allar heimlagnir í einum skurð

    • Veitur leggja allar heimlagnir í einum skurði frá lóðarmörkum að sökkli húsa ef þess er kostur.
    • Við lagningu stofnkerfa veitulagna er gengið frá veitulögnum við lóðarmörk og skilin eftir strengjahönk sem á að sanda áður en fyllt er yfir með jarðefnum. Setja skal tréhæl (kross) eða strenghlíf til að merkja staðsetningu strengjahankar. 
    • Í sökkul og í plötu er steyptur máti fyrir heimlagnir.

  • Aðveitustöð

    • Frá aðveitustöðvum Veitna kvíslast ótal lagnir enda eru þær mikilvægir hlekkir í dreifikerfi rafmagns. Tjón nærri aðveitustöð getur haft miklar afleiðingar þar sem margir raforkunotendur eru tengdir hverri stöð.
  • Götuljósastolpar

    • Við uppsetningu götuljósastólpa eiga báðir strengendar að koma inn um sama gat á stólpanum. Einnig er skilin eftir strengjahönk til að minnka tjón og auðvelda viðgerðir.
    • Bæjarfélögin sjá um allt viðhald varðandi götulýsingu, ef um tjón á stökum götuljósum er að ræða á að tilkynna til viðkomandi bæjafélags.
    • Ef götulýsing slær út í öllu hverfinu á að hafa samband við Veitur.
  • Tengiskápar

    • Einn sýnilegasti hluti dreifikerfa rafmagns eru tengiskáparnir. Frá þeim kvíslast margir strengir og þurfa Veitur að vita af öllu raski í kringum þá.
    • Veitur eiga mikið af götuskápum en eiga samt ekki alla. Míla og sveitafélögin eiga einnig eitthvað af götuskápum. Gott er að athuga eftir merkingum á skáp til að greina hvort skápur sé í eigu Veitna.
  • Dreifistöðvar

    • Veitur hafa í seinni tíð sett upp minni dreifistöðvar en áður. Stöðvarnar eru minna áberandi í umhverfi sínu en áhættan er hin sama og áður vegna jarðvinnuframkvæmda í nágrenni þeirra.
  • Dælustöðvar

    • Á veitusvæði okkar eru víða borholur fyrir heitt vatn og hjá þeim eru dælustöðvar. Í grennd við þær kvíslast dreifkerfi hitaveitu
  • Stopplokar

    • Í dreifikerfum fyrir heitt og kalt vatn eru stopplokar til að takmarka tjón og auðvelda viðgerðir.
    • Þegar gengið er frá yfirborði yfir stopplokum og brunnum á að tryggja að þau standi upp úr yfirborði og séu ekki föst.
  • Tengibrunnar hitaveitu

    • Á tengibrunnum hitaveitunnar eru loftræstitúður sem eru mikilvægir fyrir endingu lagna í brunninum. Skemmdir á loftræstitúðum þarf að tilkynna Veitum.

Hvernig getum við aðstoðað þig?