Fram­kvæmdir Veitna

Spurt og svarað um framkvæmdir Veitna.

Grafið nálægt Veitulögnum


Veitur og fleiri aðilar eiga í mörgum tilfellum lagnir innan framkvæmdasvæða þar sem uppbygging á sér stað. Lagnir Veitna eru: Pípur og rör í fráveitu, hitaveitu og vatnsveitu og rafstrengir rafveitu.

Eftirfarandi upplýsingar eru birtar til að tryggja að lagnir og aðrar eigur fái rétta meðferð. Við viljum að lagnirnar okkar verði fyrir sem minnstu hnjaski og ekki síður að aðstæður séu öruggar fyrir framkvæmdaraðila, og aðra vegfarendur, í nágrenni framkvæmdasvæðis.
Ef útlit er fyrir að lagnir verða fyrir raski á framkvæmdatíma þá ber framkvæmdaraðila að hafa samráð við Veitur áður en framkvæmdir hefjast til að lágmarka tjón á lögnum. Verði lagnir fyrir tjóni munu Veitur sækja bætur eða fara fram á að lagnir verði endurnýjaðar á kostnað framkvæmdaraðila.
Þegar unnið er í kringum lagnir er mikilvægt að hafa í huga að lagnir mega aldrei vera í lausu lofti. Ef söndun og þjöppun í kringum lagnir er ekki fullnægjandi er hætta á að tog myndist á lagnirnar sem reynir á samskeyti lagna og styttir líftíma þeirra. 

Fyrir utan mögulegar skemmdir á lögnum við gröft nálægt þeim geta skapast ýmsar annarskonar hættur.

  • Vatns- og hitaveitulagnir eru undir miklum þrýstingi og geta þrýstst út úr lagnastæði sínu sé grafið frá þeim eða undirstöðum þeirra. Rof á vatnslögnum geta valdið hættulegum skyndiflóðum.  
  • Við skemmdir á rafstrengjum er hætta á slysum á fólki vegna rafstuðs eða ljósboga.
  • Sótthætta er af skólpi sem rennur úr skemmdum fráveitulögnum.


Það sem ber að gera áður en til framkvæmda kemur er eftirfarandi:


Framkvæmdasvæði

Ávallt skal byrja á því að meta framkvæmdasvæði. 

Skilgreining á framkvæmdasvæði: Allt það svæði sem verður fyrir áraun fyrirhugaðra framkvæmda, þar með fláar sem myndast við gröft ásamt öryggissvæði frá skurðarbrún (Mynd 1).

Ásamt því að meta stærð framkvæmdasvæðis þarf framkvæmdaraðili að útfæra jarðvegsrannsóknir og graftrarplan auk þess að gera viðeigandi ráðstafanir áður en til framkvæmda kemur.

Jarðvegsrannsóknir

Jarðvegsrannsóknir þurfa að innihalda að lágmarki; dýpi niður á burðarhæfan grunn, meta skal jarðvegsgerð, lagskiptingu og grunnvatnsdýpi. Að öðru leyti skal meta umfang jarðvegsrannsókna út frá áætluðum framkvæmdum.

Graftrarplan

Graftrarplan skal m.a. innihalda allar lagnir innan og utan framkvæmdasvæðis, hæðarkóta á endanlegu dýpi framkvæmdasvæðis og hæðarkóta á umliggjandi landi. Almennt á flái í lausmassa ekki að vera brattari en 1:1 nema að jarðvegsrannsóknir hafi verið framkvæmdar sem gefa tilefni til annars. Fláar yfir 1:1 í lausmassa skapa hættu á hruni. 

Mikilvægt er að hafa í huga að:

  • Flái frá lögnum má ekki fara yfir 1:1,4 (36°) svo sandur við lagnir haldi þjöppun og skríði ekki af stað.
  • Ef lagnir eru innan framkvæmdasvæðis og verða fyrir raski m.v. graftrarplan þá þarf framkvæmdaraðili að hanna lausnir til að draga úr möguleika á skemmdum á lögnum. Þessar lausnir þurfa að fá samþykki Veitna. Til dæmis er hægt að notast við þil eða annarskonar stoðlausnir sem verja lagnir og strengi.
  • Hita-, vatns- og fráveitulagnir mega aldrei hanga. Ef fyrirséð er að þessar lagnir lendi innan framkvæmdasvæðis ber að finna þeim nýjan farveg annað hvort varanlega eða tímabundið.
  • Við rafmagnsstrengi er hægt að nota stokk eða aðrar lausnir sem sýndar eru hér fyrir neðan. Handmoka skal ofan af strengjum eftir forskrift fageftirlits eða svæðisstjóra Veitna til að forðast kápuskemmdir og mögulegt tjón.

Dæmi um staðlað verklag áður en og eftir að byrjað er að grafa:

Dæmi um úrlausnir fyrir strengi:

Hvernig getum við aðstoðað þig?