Hreinsun á skólpi áður en því er veitt út í sjó kemur í veg fyrir mengun á lífríki sjávar og stranda.
Allt vatn og úrgangur úr klósettum, sturtum, vöskum, þvottavélum og öðrum heimilistækjum sem nota vatn er mengað vatn og kallast skólp í daglegu tali.
Á Íslandi tekur fráveitan enn við hitaveituvatni sem búið er að nota til húshitunar en það gerir það frábrugðið skólpi annars staðar í heiminum.
Í eldri hverfum tekur fráveitan einnig við ofanvatni, svo sem rigningu og öðru yfirborðsvatni, sem bætast við magnið sem rennur í safnkerfið.
Því miður tekur fráveitukerfið einnig við ýmsum úrgangi sem á þar ekki heima, þ.á m. blautklútum, eyrnapinnum, tíðavörum og smokkum. Á vef Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja má finna myndband við lagið Piss, kúkur, klósettpappír sem útskýrir hvað má fara í fráveituna.
Fráveita Veitna tekur við skólpi frá heimilum og atvinnustarfsemi í gengum viðamikið lagnakerfi á þjónustusvæði sínu. Skólpið safnast saman og rennur að dælustöðvum við ströndina þaðan sem því er dælt í átt að hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða.
Í skólphreinsistöðvum er þetta mengaða vatn, skólpið, hreinsað þannig að það sé hæft til losunar. Þá er því dælt langt út í sjó þar sem það þynnist. Þannig er bæði lífríki sjávar og stranda verndað.
Ofanvatn er regnvatn eða leysingarvatn sem berst í fráveitur.Það er ekki mengað eins og skólpið þó það geti safnað í sig efnum á leið sinni um þéttbýlið. Veitur vinna að því að aðskilja það frá skólpi í fráveitukerfinu.
Rennsli ofanvatns einkennist af miklu sveiflum í magni frá náttúrunnar hendi. Hægt er að draga úr sveiflum með því að veita ofanvatni um jarðveg og gróður á för þess um þéttbýlið.
Slíkar aðferðir eru almennt kallaðar Blágrænar ofanvatnslausnir og nýtast einnig sem hreinsun á vatninu. Í Reykjavík eru til ofanvatnsáætlanir fyrir hverfin sem má finna ásamt ítarefni hér á vefnum.