Skólp er mengað vatn frá heimilum eða atvinnustarfsemi. Fráveitan veitir mikilvæga þjónustu sem enginn getur verið án en fæstir leiða hugann að í amstri dagsins. Skólp berst fráveitu Veitna frá notendum, bæði frá heimilum og frá atvinnustarfsemi. Það rennur að dælustöðvum sem dæla því í skólphreinsistöðvar. Í skólphreinsistöðvum er skólpið hreinsað þar til það telst hæft til losunar í umhverfið.
Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í Reykjavík, Kjalarnesi, Akranesi, Borgarnesi, Bifröst, Hvanneyri, Varmalandi og Reykholti. Þá er frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og hluta Garðabæjar hreinsað í hreinsistöðvum fráveitunnar við Ánanaust og Klettagarða. Á veitusvæði fráveitu Veitna eru um 60% heimila landsins. Þjónustan er tvennskonar. Annars vegar söfnun og hreinsun skólps og hins vegar ofanvatns.
Hvað er í skólpinu?
Í gegnum fráveitukerfið á höfuðborgarsvæðinu fer allt það sem sturtað er niður í klósett, vatn frá sturtum, baði, vöskum, þvottavélum og öðrum heimilistækjum sem nota heitt eða kalt vatn. Hitaveituvatn frá hitun híbýla er stór hluti skólpsins sem er frábrugðið skólpi víðast hvar erlendis. Í eldri hverfum borgarinnar tekur fráveitukerfið einnig við regnvatni og öðru vatni af yfirborði en á 7. áratugnum var farið að leggja tvöfalt kerfi og í þeim fer yfirborðsvatn aðrar leiðir til sjávar en skólpið.