Húseigandi eða rafverktaki/byggingarstjóri sækir um heimtaug. Þegar um sameiginlegar heimlagnir er að ræða, leggja Veitur allar lagnir. Raflagnahönnuður ákveður legu, stærð og þvermál ídráttarrörs. Rafverktaki ber ábyrgð á að ídráttarrör sé ídráttarhæft, skilur eftir ídráttartaug í lengri rörum, setur upp tengibox ef með þarf, leggur stofnlögn frá inntaksstað og tengir við aðalrofa.
Veitur draga heimtaugarstreng í rörið, grafa streng fyrir heimtaugar stærri en 63 A og þétta með streng í ytri enda rörs.
Hönnuður ákvarðar stærð heimtaugar m.t.t. aflþarfar í samráði við Veitur. Fyrir íbúðarhúsnæði er fjöldi íbúða lagður til grundvallar. Veitum er heimilt að gera athugasemd við val hönnuðar á stærð ef um er að ræða frávik frá reynslutölum og krefjast frekari hönnunargagna.
Heimtaug liggur frá götuvarskáp eða dreifistöð inn að aðalrofa í töflu eða í stofntengibox þar sem það er notað.
Fyrir bráðabirgðaheimtaug rafmagns (vinnuheimtaug) þarf að staðsetja vinnuskúrinn á viðkomandi lóð sem næst dreifikerfi/götuskáp á lóðarmörkum og ekki ofan á væntanlegum lagnaleiðum. Umsækjandi greiðir allan kostnað við bráðabirgðaheimtaug auk grunngjalds samkvæmt gjaldskrá. Veitur leggja ekki bráðabirgðalagnir inn á lóðir. Sé vilji umsækjanda að hafa vinnuskúr langt frá dreifikerfi/götuskáp skal hann koma sér upp móttökubúnaði sem næst götuskáp útbúnum þannig að hægt sé að koma þar fyrir mælabúnaði dreifiveitu.
Bráðabirgðaheimtaug er aftengd þegar aðalheimtaug er tengd þó ekki síðar en eftir 24 mánuði. Hægt er að endurnýja umsókn að 24 mánuðum liðnum og greiðist þá grunngjald til 24 mánaða að nýju. Því er mikilvægt að húseigandi sé tilbúinn með rafmagnstöflu og hafi rafverktaka til reiðu þegar Veitur koma að tengja aðalheimtaugina til að lágmarka rafmagnsleysi á byggingarstað.
Tafla 1 - Strengir og ídráttarrör
Stærð | Strengur | Ídráttarrör |
50 A | 4 x 25 AI | 50 mm |
63 A | 4 x 25 AI | 50 mm |
100 A | 4 x 50 Al | 63 mm |
200 A | 4 x 150 Al | 90-110 mm |
315 A | 4 x 240 Al | 110 mm |
400 A | 4 x 300 Al | 110 mm |
630 A | 2 x (4 x 240 Al) | 2 x 110 mm |
710 A | 2 x (4 x 300 AI) | 2 x 110 mm |
Húseigandi lætur leggja ídráttarrör (PEH) fyrir heimtaugarstreng inn að inntaksstað. Rafverktaki sér um lagningu ídráttarrörs (nema þar sem allar heimlagnir eru í sama skurði og afgreiddar af Veitum) og ber ábyrgð á að það sé hæft til ídráttar.
Ídráttarrör fyrir heimtaug 63 A og minni eiga að vera 50 mm í þvermál. Gæta þarf þess að rörið þrengist ekki í beygjum og beygjuradíus má ekki vera minni en 0,5 m. Um aðrar heimtaugar vísast í töflu 1 og kaflann „Stærri heimtaugar“ hér að neðan.
Fyrir 100 A heimtaugar og minni þarf ídráttarrör að ná út fyrir lóðarmörk. Loka skal rörinu tryggilega, og skilja eftir holu ef hægt að afgreiða heimtaug strax. Ef ekki hægt að afgreiða heimtaug strax, skal merkja staðsetningu á endanum og grafa yfir. Að jafnaði á að leggja ídráttarrör heimtaugar stystu leið að lóðarmörkum hornrétt á götuhlið húss. Sé fjarlægðin meiri en 10 m þarf að skilja ídráttartaug eftir í rörinu.
Rörið á að leggja í sand, þannig að a.m.k. 20 cm sandlag sé allt umhverfis það. Þurfi að setja rörið saman á samsetningin að vera þétt og þannig frágengin að ekki myndist brún að innanverðu. Aðgæta þarf við lagningu rörsins að vatnshalli sé frá húsi svo ekki myndist vatnspoki í því. Það skal að jafnaði lagt á 0,7 m dýpi undir endanlegu jarðvegsyfirborði inn fyrir útvegg.
Endi ídráttarrörs innanhúss þarf að vera ofar en yfirborð jarðvegs við inntaksstað. Ídráttarrörinu skal lokað tryggilega í báða enda til að óhreinindi komist ekki inn í það.
Inntaksstaður heimlagnar á að vera við útvegg húss, götuhlið eða þeirri hlið sem snýr að dreifilögnum Veitna. Hönnuði er skylt að kynna sér skilmála Veitna og staðsetningu lagna á vegum fyrirtækisins.
Meginreglan er að aðaltafla sé innan 4 m frá útvegg og að tryggt fjarskiptasamband sé á staðnum. Ef Veitur samþykkja að aðaltafla sé lengra en 4 m frá útvegg verður rafverktaki að setja upp stofntengibox af viðurkenndri gerð. (Tæknilegir tengiskilmálar rafveitna TTR 4.1.14). Alltaf þarf að vera tryggt að gott fjarskiptasamband sé við aðaltöflu/mælatöflu. Stofntengibox þarf að staðsetja innan þess svæðis sem mæliblað sýnir sem inntaksstað, helst þó í bílageymslu. Því skal komið fyrir í einangrun útveggs með að minnsta kosti 25 mm einangrun á bak við eða í burðarvegg.
Þegar mælar eru fleiri en einn skal inntaksrými vera aðgengilegt öllum notendum en ekki í sérrými eins notanda.
Ef aðaltafla eða stofntengibox er í kjallara eða neðar en jarðvegsyfirborð þarf að vanda sérstaklega frágang á ídráttarröri vegna hættu á að jarðvatn leki eftir rörinu inn í töfluna.
Ef ídráttarrörið nær ekki alla leið inn í töflu þarf að hafa samráð við Veitur um frágang heimtaugarstrengsins.
Ídráttarrör fyrir stærri heimtaugar en 100 A verða að ná minnst 0,5 m út fyrir útvegg.
Ídráttarrör fyrir stærri heimtaugar en 100 A verður að vera beint og enda í gryfju undir töfluskáp. Gryfjan þarf að vera að minnsta kosti 1m á lengd og nægilega breið og djúp, til að ídráttur og tenging verði auðveld. Hönnuðir og rafverktakar skulu kynna sér lágmarks radíus stofnstrengs og tryggja að rými í gryfju sé nægt.
Við val á ídráttarröri í iðnaðarhúsnæði er rétt að taka mið af hugsanlegri stækkun heimtaugar síðar meir.
Fyrir heimtaugarstreng í frístundahús lætur húseigandi leggja ídráttarrör að útivarskáp eða loftlínustólpa Veitna, að lóðarmörkum með ídráttartaug. Sverleiki ídráttarrörs er háður aðstæðum og skal valinn í samráði við Veitur.
Ídráttarrörið þarf að ná út fyrir gróðurbelti eða svæði sem ekki er hægt að koma vélgröfu að. Veitur grafa ekki fyrir heimtaugum innan lóðarmarka. Viðkomandi húseigendur sjá um þann gröft í samráði við Veitur.
Fyrir frístundahús leggur húseigandi til mælakassa sem uppfyllir tæknilega tengiskilmála Samorku. Rafverktaki kemur kassanum fyrir utanhúss á norðurvegg, til að forðast upphitun vegna sólar, eða samkvæmt samþykktri teikningu og tengir heimtaug og stofn. Hæð undir neðri brún mælakassa á að vera 1,5 m. Heimtaugarstrengur skal varinn með plastpípu upp vegg að töflu.
Inntaksstaður heimtaugar í hesthús og sambærileg hús, þar sem ekki er dagleg viðvera, er í aðaltöflu sem komið er fyrir utanhúss á þeirri hlið sem inntakskvöð mæliblaðs segir til um eða í samráði við Veitur. Aðaltaflan, sem húseigandi leggur til, á að rúma minnst jafnmarga kWh–mæla og eignarhlutar geta flestir orðið í húsinu. Töflukassinn verður að uppfylla kröfur um þéttleika rafbúnaðar utanhúss og utan um hann á að vera hlífðarkassi úr t.d. vatnsheldum krossvið.
Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, hafa gefið út sameiginlega skilmála fyrir tengingar neysluveitna: