Ertu að fara að grafa?

Viðkvæmar veitulagnir eru undir yfirborðinu í görðum og götum.

Veitulagnir tengja íbúa og fyrirtæki við vatn og rafmagn, en einnig fráveitu. Þess vegna er betra að tengingar haldist heilar þó verið sé að grafa.

Íbúar og fyrirtæki í nágrenninu treysta á að tengingar þeirra haldi til að þau fái til sín vatn og rafmagn og enginn vill verða valdur að óþarfa óþægindum annarra. 

Mikilvægt er að ganga rétt frá þeim lögnum sem eru í opnum skurðum þar sem er unnið. Rof á vatnslögnum og rafmagnsstrengjum getur verið hættulegt og tjónið dýrt. 

Undirbúningur

Áður en byrjað er að grafa er öruggara að vita hvar lagnir liggja og hvort þær eru nálægt staðnum. Ef útlit er fyrir að lagnir verði fyrir hnjaski á framkvæmdatíma þá ber að hafa samráð við Veitur áður til að lágmarka tjón á lögnum.

Finndu lagnirnar á kortavef Orkuveitunnar, Luksjánni. Athugaðu að sveitarfélög og aðrar dreifiveitur eiga mögulega lagnir á staðnum líka (Rarik, HS Veitur og sveitarfélögin).

Hafðu góðan fyrirvara áður en þú byrjar að grafa
Vertu viss um að hafa góðan fyrirvara áður en þú byrjar að grafa því það getur tekið tíma fyrir okkur að bregðast við óskum t.d. um línurof.

Ef það eru háspennustrengir
Ef grafa á nálægt háspennustreng þá þarf að óska eftir línurofi á meðan. Það getur tekið um viku að fá línurof ef það er á annað borð möguleiki á þessum stað. Það er hættulegt að grafa í lifandi háspennustreng og ávallt ætti að óska eftir línurofi.

Við sækjum kostnað vegna skemmda á háspennustrengjum ávallt til framkvæmdaaðila

Sónun
Ef lagnaleiðin sem sést á Luksjá er á sama svæði og fyrirhugaðar framkvæmdir þá er betra að vera viss. Hægt er að óska eftir sónun hjá Veitum til að fá nákvæmari staðsetningu. Margar eldri lagnir eru ekki teiknaðar á nákvæmum stað, sumar voru t.d. settar á þægilegri stað en hönnun gerði ráð fyrir og voru ekki merktar rétt inn.

Umgengni í kringum veitulagnir

Það er öllum í hag að lagnir verði fyrir sem minnstu hnjaski á meðan grafið er nálægt þeim. Vertu viss um að hafa undirbúið verkið vel áður og þekkir lagnaleiðina á staðnum.

Rof á lögnum er hættulegt
Vatnslagnir eru oft undir miklum þrýstingi og geta rofnað sé grafið frá þeim eða undirstöðum þeirra með skyndilegu flóði í nágrenninu.

  • Hitaveitulagnir flytja mjög heitt vatn og flóð úr þeim hættulegt.
  • Rof á rafstrengjum getur valið rafstuði eða ljósboga sem er hættulegt.
  • Skólplangir sem skemmast geta stíflast og valdið flóði innanhúss.
  • Gamlar lagnir í vatnsveitu geta auðveldlega rofnað ef grafið er nálægt þeim.

Almennar reglur þegar grafið er nálægt veitulögnum
Nánari leiðbeiningar með útskýringamyndum má finna hér á vefnum okkar.

  • Eingöngu má nota ótenntar skóflur.
  • Alltaf einhver með handskóflu í skurðinum
  • Handgrafa niður á lögn eftir að viðvörunarborði, hlíf eða sandlag finnst eða annað sem bendir til að lögn sé undir.
  • Skafa ofan af lögn með handskóflu til að sýna stefnuna
  • Vakta aðrar lagnir í skurði
  • Fullmoka frá lögnum og halda þeim frá vélskóflu
  • Staðsetja spindilloka og greiningar úr stofnlögnum
  • Halda til haga hlífum og viðvörunar borðum
  • Vertu viss um að uppgröftur og skurðbakkar geti hvorki hrunið yfir lagnir né starfsfólk í skurðinum.

Merkingar á lögnum í skurði
Lagnir Veitna eru margar orðnar áratuga gamlar og misjafnt hvort þær séu merktar eða ekki. Þær eiga að vera merktar í jörðu, t.d. með neti, varúðarborða eða hlíf, en ekki hægt að treysta eingöngu á það.

Þar sem má gera ráð fyrir eldri lögnum, t.d. í hverfum byggðum fyrir 1985, má gera ráð fyrir að lagnir séu ómerktar í jörðu og séu ekki alltaf nákvæmlega þar sem þær eru merktar inn á teikningar.

Sandur á óvæntum stað í skurði er sterk vísbending um að taka þurfi upp handskóflu.

Öryggi í og við skurð
Flái frá lögnum má ekki fara yfir 1:1,4 (36°) svo sandur við lagnir haldi þjöppun og skríði ekki af stað. Ef jarðvegsrannsóknir hafi verið gerðar sem gefa tilefni til annars má víkja frá þessari reglu.

Rétt vinnubrögð vernda lagnir og fólkið sem vinnur í skurðinum.

Halda skal öryggissvæði við skurðbrún til að koma í veg fyrir fallhættu og hrun.

Vinnuvélar og verkfæri
Skólfla vélgröfu verður að vera ótennt þegar grafið er nálægt veitulögnum. Þá þarf einhver með handskóflu að vera nærri til að handgrafa niður á lögn þegar t.d. merkingar eða sandlag finnst.

  • Grafið frá hitaveitulögnum

    Skófla vélgröfu má aldrei snerta plastkápu lagna því það getur skemmt kápurna og/eða samskeyti. Þannig skemmdir valda því að vatn kemst að lögninni og tærir hana.

    Það fer eftir þvermáli hitaveitulagna hversu langt má grafa frá þeim. Hættan er sú að lagnir beyglist eða brotni (kiknun) ef farið er yfir hámarks lengd skurðar án þess að gera viðunandi ráðstafanir (sjá neðar).

    Skurðlengd fyrir mismunandi þvermál lagna (stærðir með kápu)

    • Hámark 3m skurður fyrir 90-110mm
    • Hámark 5m skurður fyrir 140-160mm
    • Hámark 10m skurður fyrir 200-250mm
    • Fyrir lagnir sverari en 250mm þarf að hafa samráð við Veitur
  • Hitaveitustokkar 

    Eldri stofnlagnir hitaveitna eru stálpípur í steyptum stokkum og meðfram stokkum er stundum gulur borði sem merkir stýristreng.  Undir stokkum er ræsimöl eða jarðvatnsræsi til að koma í veg fyrir að vatn komist í stokkinn og tæri lögnina.   

    Það þarf að gæta þess að skadda ekki stýristrenginn, þéttiborða á stokkloki eða jarðvatnsræsi. Ef svo óheppilega vill til að slys verður þá þarf að tilkynna það til Veitna svo hægt sé að lagfæra það strax. Þá er hringt í neyðarsíma Veitna 516 6161. 

    Það er aldrei leyfilegt að skemma stokkinn eða bora í hann. Stokkurinn ver lögnina fyrir vatni og kemur þannig í veg fyrir tæringu. Ef stokkur stendur í vegi fyrir framkvæmdum þarf að finna aðra leið og um að gera að heyra í starfsfólki Veitna til að fá aðstoð.  

  • Grafið frá kaldavatnslögnum

    Hafðu samráð við okkur ef þú þarft að grafa frá festum kaldavatnslagna til að ekki verði tjón. 

    • Sumum gerðum kaldavatnslagna er þrýst saman og lagnirnar hafa því mjög takmarkað þol gegn togkröftum. 

    • Þeim er haldið saman með festum sem eru ýmist steypuhlunkar eða fastir hlutir svo sem holræsabrunnar. 

    • Ef grafið er frá festunum má búast við meiriháttar tjóni. 

Ef fyrirséð er að þessar lagnir lendi innan framkvæmdasvæðis ber að finna þeim nýjan farveg annað hvort varanlega eða tímabundið.

Við rafmagnsstrengi er hægt að nota stokk eða aðrar lausnir, leiðbeiningar er að finna hér. Handmoka skal ofan af strengjum eftir forskrift fageftirlits eða svæðisstjóra Veitna til að forðast kápuskemmdir og mögulegt tjón.

Skemmdir á lögnum

Vinsamlegast tilkynntu strax um skemmdir sem þú veldur eða finnur á veitulögnum. Ef þú ert ekki viss um hvort veitulögn hafi skemmst hringdu í okkur í neyðarsímann 516 6161 og láttu starfsfólk Veitna dæma um það. Skemmdir á kápum er betra fyrir okkur að laga strax og einungis í endurteknu gáleysi og skemmdum hafa Veitur rukkað fyrir slík tjón. Það er öllum, sér í lagi viðskiptavinum í nágrenninu, í hag að koma í veg fyrir óvænta leka síðar meir.
Tjón á háspennustrengjum er alltaf sótt til framkvæmdaaðila.

Hvernig getum við aðstoðað þig?