Veitur munu hreinsa Nesjavallaæð að innan til að bæta flutningsgetu hennar. Hreinsunin er nauðsynleg til að minnka þrýstifall og mun standa yfir frá 30. maí til 30. júní. Á meðan á framkvæmdum stendur þarf að loka lögninni og verður heitavatnslaust í Dallandi, Miðdal og Lynghólsveitu á tímabilinu. Að öðru leyti mun aðgerðin ekki hafa nein áhrif á heitt vatn til íbúa á höfuðborgarsvæðinu.
Af hverju þarf að hreinsa Nesjavallaæð?
Nesjavallaæð er afar mikilvæg en hún er ein af megin flutningsleiðunum á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Lögnin var síðast hreinsuð árið 2003 og nú er orðið tímabært að hreinsa hana aftur þar sem steinefni úr vatninu hafa fallið á pípuna. Slíkar útfellingar gera það að verkum að þrýstifall eykst sem skerðir flutningsgetu. Við hreinsunina er settur hreinsibúnaður inn í lögnina, eins konar skrúbbur, sem hreinsar pípuveggina.
Nesjavallaæð er um 30 km löng hitaveitulögn sem flytur um 85 gráðu heitt vatn frá virkjuninni á Nesjavöllum til höfuðborgarsvæðisins. Hún var tekin í notkun árið 1990 og flutningsgeta hennar er liðlega 1.700 lítrar á sekúndu.
Óhreinu vatni hleypt á yfirborðið
Hleypa þarf um 60°C heitu óhreinu vatni út á yfirborðið við stýrishús hitaveitu við Mjódalsveg á Reynisvatnsheiði, til að koma í veg fyrir að óhreinindin dreifist út í kerfið og jafnvel heim til fólks. Vegfarendur munu sjá áhrifin á svæðinu, þar sem gróðurinn mun verða fyrir skemmdum af völdum hitans. Þetta er gert í fullu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og skrifstofu umhverfisgæða Reykjavíkurborgar. Veitur munu ganga eins vel frá öllu yfirborði og mögulegt er þegar hreinsun er lokið. Skemmdir á umhverfinu verða ekki varanlegar. Búast má við að vatn geti borist á um 32.000 fm2 svæði en þó er vonast eftir því að nálægar sprungur í bergi taki við mestu af vatninu sem mun þá minnka umfang vatns á yfirborði.
Öryggi tryggt
Til að tryggja öryggi vegfaranda og starfsfólks verður Nesjavallaleið lokuð við Selás á meðan hreinsunarvinnan stendur yfir, auk þess verður reiðstígum norðan við Mjódalsveg lokað. Svæðið verður vel merkt og varað við hættunni sem skapast vegna hitans á vatninu sem hleypt er út á yfirborðið.
Orkuveitan og dótturfélagið Veitur hafa samþykkt samninga við North Tech Drilling ehf. og ítalska fyrirtækið Hydro Drilling S.R.L. um borun allt að 35 jarðhitahola í kjölfar útboðs fyrirtækjanna sem fram fór í ágúst 2024.
Veitur og Reykjavíkurborg stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025, í nóvember síðastliðnum.