Veitur vaxa með samfélaginu
Unnið var markvisst að jarðhitaleit og borunum meðal annars í Hveragerði og á Reykjum, með það að markmiði að tryggja nægt heitt vatn til framtíðar. Ný borhola var tekin í notkun á Vesturlandi og styrkti hún afhendingaröryggi hitaveitunnar í Borgarfirði og á Akranesi. Jafnframt hófust framkvæmdir við stækkun varmastöðvar Hellisheiðarvirkjunar Orku náttúrunnar sem mun auka afhendingu heits vatns til höfuðborgarsvæðisins verulega.
Rafveita Veitna hélt áfram að vaxa í takt við orkuskipti og fólksfjölgun. Dreifikerfið var styrkt, loftlínur lagðar í jörðu og fjöldi dreifistöðva fór yfir 1.000. Snjallvæðing rafkerfisins jókst og styttir nú straumleysi og eykur öryggi starfsfólks og viðskiptavina.
Sjálfbærar framkvæmdir og sterkari innviðir
Veitur beittu skurðlausum lausnum í auknum mæli sem minnkuðu rask fyrir fólk, kolefnisspor og áhrif á nærumhverfi. Nýjar aðferðir við lagningu rafstrengja og veitna eru bæði hagkvæmari og umhverfisvænni til lengri tíma.
Undirritaður var stór samningur við Evrópska þróunarbankann (CEB) um 75 milljóna evra lán til uppbyggingar hitaveitna og vatnsveitna , m.a. til að efla viðnámsþol gegn náttúruvá.
Samtal og samstarf
Aukin áhersla var lögð á samtal við samfélagið með reglubundnum íbúafundum. Þjónusta við sveitarfélög og uppbyggingaraðila var efld og vinna við nýjar „Mínar síður“ er langt komin sem mun upplýsa fólk betur um sína notkun og reikninga.
Veitur undirrituðu einnig fyrsta rammasamninginn þar sem unnið verður að viðhaldi lagna, vinnu við heimlagnir og nýframkvæmdir undir einum samningi. Það mun auka skilvirkni, gæði og fyrirsjáanleika.
Nýsköpun og stafrænar lausnir
Árið einkenndist af öflugri stafrænni þróun. Jafnframt voru þróuð og tekin í notkun ný hermilíkön og spár sem gera flókin veitukerfi sýnilegri og styðja betri ákvarðanatöku, þar á meðal ný álagsspá fyrir hitaveitu og langtímaspár fyrir starfsemi Veitna. Þá tóku Veitur í notkun nýja tæknilausn sem veitir stjórnstöð rafmagns rauntímasýn á hvar bilun er staðsett niður á götur og heimili sem flýtir bilanagreiningu. Veitur komust í úrslit Evrópsku þjónustuverðlaunanna 2025 fyrir nýtingu gagna.
Nýsköpunarfestival Veitna var haldið í fyrsta sinn þar sem markmiðið var að leysa stórar áskoranir á stuttum tíma með fjölbreyttum hóp. Frábærar lausnir fóru í þróun í framhaldinu, m.a fyrir betri orkuvitund og framtíð fráveitukerfa.
Veitur lögðu líka áherslu á að finna skapandi lausnir til að nýta betur það sem frá fellur í starfseminni, eins og afgangsvarma frá húshitun, sand og fitu úr fráveitunni og fleira. Kjarninn í stefnu Veitna- nýsköpun, frumvæði og öflugt samstarf- endurspeglaðist m.a í samstarfsverkefni með háskólanum þegar settur var upp almenningsbekkur sem hitaður er upp með afgangsvarma sem annars færi út í sjó.
Áskoranir
Fjölþáttaógnir og vaxandi ófriður skapa áskoranir sem Veitur taka alvarlega. Nauðsynlegt er að styrkja og efla veituinnviði og auka viðnámsþrótt. Það er hlutverk Veitna að tryggja tengingu samfélagsins við rafmagn, hita, hreint vatn og fráveitu og vernda þessi ómissandi lífsgæði fyrir komandi kynslóðir.
Við þökkum fyrir gott ár!
Starfsfólk Veitna
.jpg?width=3840&quality=75&branch=main)
.jpg?width=3840&quality=75&branch=main)
Þetta var ár uppbyggingar, nýsköpunar og aukins samtals við samfélagið. Veitur náðu mikilvægum áföngum í styrkingu innviða, efldu samstarf og lögðu áherslu á sjálfbærar lausnir til framtíðar.

Helsta ástæðan er sú að í dag borgar fólk fyrir það sem það notar hverju sinni og notkun er meiri að vetri til.