Góður gangur í jarð­hita­leit

Veitur leita að heitu vatni

Veitur reka hitaveitur á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturlandi . Eftirspurn eftir heitu vatni eykst ár frá ári í takt við byggðaþróun. Veitur leita því að nýtanlegum jarðhita til að tryggja íbúum þessi lífsgæði til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi.

Víða á veitusvæðunum er nú verið að bora rannsóknarholur til að kortleggja betur hvar jarðhita er að finna. Sterkar vísbendingar eru á ákveðnum svæðum og þar eru boraðar grannar og grunnar holur til jarðhitaleitar. Notuð eru létt bortæki á beltum sem krefjast hvorki borplana né vegagerðar. Holurnar eru alla jafna um 60-150 metra djúpar og hverja þeirra tekur einn til þrjá daga að bora. Þá tekur við úrvinnsla hitamælinga og og annarra athuganna sem færa mat á hvort líkur séu á vinnsluhæfar holur fáist með dýpri borun.

Nú standa yfir jarðhitarannsóknir á Borg á Mýrum, á Kjalarnesi, og Áfltanesi og á næstunni verður farið í rannsóknarboranir í Ásahreppi. Þá er verið að bora rannsóknarholur við sunnanverðan Grafarvog (við Sævarhöfða og Stórhöfða).

Rannsoknarhola Dilatanga

Rannsóknarhola tekin við göngustíg á Dílatanga í Borgarnesi. Mynd: Kristinn Þórarinsson.

Ef gögnin benda til þess að nægt vatn sé til að nýta er holan skoðuð nánar og jafnvel dýpkuð. Snemma á þessu ári var sagt frá því að rannsóknarholur voru boraðar á Álftanesi og í Borgarbyggð. Einstaka holur þar hafa gefið tilefni til nánari skoðunar og þar hafa þær verið dýpkaðar. Frekari rannsókna er þó þörf áður en fjárfest verður í þeim til nýtingar fyrir íbúa.

Allar rannsóknarholur eru boraðar í góðu samstarfi og samráði við landeigendur. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) veita ráðgjöf við rannsóknirnar og Bergborun hefur yfirumsjón með borunum á svæðunum.

Jardhitaleit Alftanes

Rannsóknir á Álftanesi vorið 2024. Mynd: Kristinn Þórarinsson.

Hvernig getum við aðstoðað þig?