Veitur héldu íbúafund í Golfskálanum á Akranesi þann 19. nóvember. Haraldur Benediktsson bæjarstjóri opnaði fundinn og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, hélt kynningu á starfsemi fyrirtækisins á Skaganum. Gestir tóku virkan þátt í samtalinu, spurðu áhugaverðra spurninga og komu með gagnlegar ábendingar sem án efa nýtast í vinnu Veitna í bænum. Veitur og Akraneskaupstaður eiga í góðu samstarfi í mörgum verkefnum sem miða að því að samfélagið og atvinnulífið geti dafnað.
„Ég nota Akranes oft sem dæmi um gott samstarf Veitna og sveitarfélags þar sem sameiginlega er horft til framtíðar með hag íbúa og atvinnulífs í huga. Við erum samstíga við undirbúning nýrra hverfa og það er mikill vilji og áhugi hjá báðum að prófa til dæmis ný upplýsingakerfi, mælitæki og slíkt á Akranesi. Við erum ánægð og þakklát fyrir það góða samband sem er á milli okkar“ segir Sólrún.
Veitur eru með heitt og kalt vatn, rafmagnsdreifingu og fráveitu á Akranesi og þar er starfstöð sem sinnir Vesturlandi. Þar vinna 16 manns.
Fjölmörg verkefni í vinnslu
Sólrún sagði frá heildstæðri endurnýjunaráætlun fyrir rafmagnsdreifikerfið á Akranesi sem er í vinnslu og uppsetningu búnaðar til að stytta viðbragðstíma í háspennubilun. Hún talaði um framtíðarsýn fyrir fráveituna þar sem skólp og ofanvatn er aðskilið, enda sjálfbærara, umhverfisvænna og ódýrara til lengri tíma. Sólrún sagði jafnframt frá góðu samstarfi við fyrirtæki í bænum til að mæla og fanga m.a. fitu fyrr, áður en hún fer út í fráveitukerfið. Það sé vinna sem mun halda áfram.
Sólrún fór yfir áætlun næstu ára fyrir útskiptingu á asbest lögnum í kalda vatninu. Í dag eru 112 km af kaldavatnslögum í bænum og þar af eru tæpir 12 km úr asbesti frá mismunandi tímabilum. Á næstu 2-3 árum verður 4 km skipt út. Í dag eru asbest lagnir fjarlægðar úr jörðu þegar þær eru teknar úr notkun, en áður fyrr var talið betra að láta þær liggja óhreyfðar, enda mesta hættan af asbesti þegar því er raskað. Veitur nýta alltaf tækifærið þegar unnið er í götum til að skipta út lögnum. Sólrún sagði að áhyggjur íbúa yfir asbesti í lögnum sé skiljanlegur og verið sé að hraða skiptinguinni út þess vegna, en engar rannsóknir sýna fram á skaðsemi asbests í lögnum. Asbest hefur ekki fundist í neysluvatni á Akranesi.
Kalda vatnið á Akranesi er af góðum gæðum og er vel rannsakað með tilliti til gerla, náttúrlegrar samsetningar og asbests. Aukið eftirlit er með vatnsbólinu í Berjadalsá eftir að þörungar mynduðust þar í margra vikna sumarblíðu árið 2023.
Sólrún sagði frá endurnýjun á stofnlögn hitaveitunnar, en hún er sú lengsta á landinu. Tæp 70 km lögnin frá Deildartunguhver hefur að mestu verið endurnýjuð og um 8km verða endurnýjaðir í náinni framtíð. Heita vatnið er 97°c þegar það leggur af stað og 90°c þegar það kemur í tankinn á Akranesi. Með endurnýjuninni eykst flutningsgetan og bilanatíðni lagnarinnar lækkar til muna.
Leitað að heitu og köldu vatni
Öflun grunnvatns fyrir neysluvatnið er forgangsmál Veitna fyrir Akranes, en í dag er 80% vatnsins grunnvatn frá Ósveitu og Slögu. Opna vatnsbólið í Berjadalsá þarf þó enn að nýta fyrir það sem upp á vantar, um 20%. Vatnsauðlindir eru af skornum skammti í nágrenni bæjarins, en Veitur hafa lagt í mikla rannsóknarvinnu til að finna meira vatn á svæðinu og eru hvergi nærri hætt leit.
Rannsóknir benda til þess að það sé jarðhiti á Akranesi. Borholan við heimavistina er frá sjöunda áratugnum og er 1400m djúp og 140°c sem er mjög heitt. Þar er þó ekkert vatn, en aðrar rannsóknaholur hafa bent til möguleika annars staðar og Veitur hafa ákveðið að byrja á holu við Jaðarsbakka nærri eldri blokkunum á Jaðarsbraut. Ef þar finnst bæði hiti og vatn þá mun hún nýtast í hitaveituna á Akranesi til að Veitur geti vaxið með samfélaginu og atvinnulífi á staðnum.
Horft til framtíðar
Á þessu ári verða tekin í notkun ný lýsingartæki fyrir kalda vatnið með betri viðbragðstíma ef eitthvað bilar. Rúmir 5 km af endurnýjuðum stofni hitaveitunnar hafa verið teknir í notkun sem bætir afhendingaröryggi á heitu vatni til muna.
Rafdreifikerfið verður uppfært á næstu árum til að mæta orkuskiptum og lögnum í köldu og heitu vatni skipt út. Við endurnýjun eru lagnir stækkaðar til að mæta aukinni þörf og samfélagi í örum vexti.
Til að lagnir endist sem lengst er jarðvegsskipt undir öllum lögnum í dag til að takmarka áhrif frá jarðsigi, en það er almennt töluverð áskorun frá náttúrunnar hendi á Akranesi. Jarðsig hefur slæm áhrif á lagnir og er sérstaklega áberandi á Grundunum, Esjuvöllum og Dalbraut þar sem það orsakar leka.
Framkvæmdir Veitna á Akranesi á núverandi ári og áætlaðar á því næsta má finna á framkvæmdakorti Veitna.
Sólrún minnti á að mikilvægt sé að þau sem eru skráð fyrir mælum hjá Veitum séu með tengiliðaupplýsingar skráðar. Þannig geti Veitur sent tilkynningar um þjónusturof og slíkt. Þá minnti hún á mikilvægi þess að láta leigjendur, sem ekki greiða heitt vatn og rafmagn, vita ef lokun er fyrirhuguð. Tengiliðaupplýsingar eru skráðar á mínum síðum hér á vefnum.
Fundurinn var ánægjulegt samtal við íbúa og við hlökkum til að mæta næst á Skagann!



Uppbyggilegar og hreinskiptar umræður á íbúafundi á Akranesi

Veitur hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á þjónustuhlutverk sitt gagnvart heimilum, fyrirtækjum og sveitarfélögum. Orkuskiptin eru hluti af þeirri vegferð, enda eru þau eitt af stóru viðfangsefnum samtímans.