Fimm kíló­metrar úr lofti í jörð

Ávinningur þess að leggja rafstrengi í jörðu er mikill með takmörkuðum umhverfisáhrifum, tryggari afhendingu rafmagns og fjárhagslegum sparnaði.

Loftlínur í dreifikerfi rafmagns eru smám saman að hverfa úr umhverfinu á rafveitusvæðum Veitna og stefnt er að því að afleggja þær allar fyrir lok árs 2027. Í stað þeirra koma jarðstrengir sem hafa fjölmarga kosti umfram loftlínurnar. Engar nýjar loftlínur eru lagðar hjá Veitum, heldur eru strengir nú alfarið settir í jörðu og alla jafna meðfram vegum og slóðum sem þegar eru til staðar.

Hefðbundnir háspennustrengir í dreifikerfinu eru um 6cm í þvermál og 11 þúsund Volt og krefjast lítils helgunarsvæðis í kring, öfugt við t.d. stóra flutningsstrengi á milli landshluta sem eru margfalt sverari, orkumeiri og þurfa stærri skurði og umgjörð.

Ávinningur þess að leggja rafstrengi í jörðu er margvíslegur, þar ber hæst að umhverfisáhrifin eru takmörkuð, afhending rafmagns tryggari og fjárhagslegur sparnaður töluverður.

Á árinu hafa rúmlega fimm kílómetrar af loftlínum verið teknir úr rekstri og settir í jörðu til viðbótar við þá 39 kílómetra sem hafa verið teknir úr rekstri undanfarin þrjú ár. Samhliða þessari vinnu hafa Veitur bætt háspennustrengjum við á svæðunum í kring til að styrkja dreifikerfið og undirbúa ný svæði, þ.á m. fyrirhugaða frístundabyggð við Selmerkurveg.
Alls hafa tæpir tíu kílómetrar af háspennustrengjum verið lagðir á árinu og um 7,5 kílómetrar til viðbótar af lágspennustrengjum. Saman auka þeir rekstraröryggi rafveitunnar mikið á veitusvæðunum og viðbragðstími í bilunum minnkar mikið enda strengirnir aðgengilegri nærri vegum en í móa og mýrum. Viðskiptavinir hafa því mikinn hag af breytingunum.

Loftlínurnar ásamt staurunum sjálfum verða teknar niður þegar mikið frost er í jörðu til að halda raski á jarðveginum í algjöru lágmarki. Það rímar vel við aðra viðhaldsvinnu hjá Veitum sem er í lágmarki yfir kaldasta tíma ársins.

Af hverju að taka niður loftlínur?

Loftlínur þarfnast viðhalds og eftirlits sem er kostnaðarsamt fyrir samfélagið til lengri tíma. Þær liggja utan alfaraleiðar og í óveðrum hafa staurarnir brotnað og strengir slitnað. Eitt óveður sem veldur skemmdum á loftlínum getur því ekki einungis orsakað rafmagnsleysi hjá notendum heldur hleypur viðgerðarkostnaður á tugum milljóna.

Lína héluð

Loftlínur geta farið illa út úr kulda og óveðrum

Plæging rafstrengja

Háspennustrengir í dreifikerfinu eru margir hverjir í smærra lagi. Með nýjum aðferðum er hægt að setja þá í jörðu með takmörkuðum tilkostnaði og þar liggja þeir varðir af yfirborði fyrir veðri og farartækjum. Langflest þekkjum við skurðina sem fylgja vinnu í veitukerfunum, sérstaklega í byggð, en Veitur leita sífellt leiða til að nota skurðlausar lausnir.

Í byggð þar sem götur, gangstéttar og margvíslegar lagnir eru neðanjarðar hentar ekki að nota plóg til að leggja rafstrengi, enda er þá alltaf hætta á skemmdum á t.d. hitaveitulögnum og pláss til athafna er takmarkað.

Utan byggðar eru möguleikarnir meiri þar sem hægt er að nýta plóg til að leggja rafstreng í jörðu og takmarka þannig verulega rask á yfirborði. Þá er jörð plægð á hentugum stöðum, t.d. meðfram vegi og slóðum, rafstrengur lagður í sárið og gengið frá yfirborði. Ef jarðvegur er möl eða mold er hægt að vinna mörg hundruð metra á hverjum degi, en ef klöpp er undir verður fyrirhöfnin aðeins meiri. Vélin sem vinnur verkið er þung, en jarðvegurinn undir henni jafnar sig mjög fljótt enda eru beltin undir henni breið og dreifa álaginu vel.

Meðalkostnaður við að plægja rafstrengi í jörðu er fjórðungur af kostnaði við gröft og því hægt að gera mun meira á ódýrari og fljótlegri hátt.

2024-plaeging jardstengs

Rafstrengur plægður í jörð meðfram Hafravatnsvegi

Myndir tók David Tomis, rafvirki hjá Veitum

Hvernig getum við aðstoðað þig?