Vatnsveitan á Akranesi fær vatn frá þremur vatnsbólum; Berjadalsá og lindasvæðum við Slögu og Óslæk. Vatnið er allt gegnumlýst til að tryggja heilnæmi þess. Á fimmtudaginn kom upp bilun í öðru af tveimur gegnumlýsingartækjum vatnsveitunnar með þeim afleiðingum að hluti af vatninu fór ólýstur inn á dreifikerfið. Þegar bilunin uppgötvaðist stuttu síðar var tækið strax tekið úr rekstri og fór þá allt vatnið í gegnum hitt tækið sem getur annað allri framleiðslunni.
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands var strax upplýst og var staðan metin þannig að mjög litlar líkur væru á því að almenningi gæti stafað hætta af vatninu, enda um afmarkaðan atburð að ræða sem þegar hafði verið brugðist við. Sýni voru tekin til greiningar, sem tekur nokkra daga að fá niðurstöður úr. Bráðabirgðaniðurstöður gefa nú til kynna að E.coli gerlar yfir greiningarmörkum, en þó í mjög litlu magni, hafi verið til staðar í ólýstu vatni.
Til þess að gæta fyllstu varkárni var Heilbrigðisstofnun Vesturlands og umdæmislæknar sóttvarna strax upplýst á fimmtudag.
Það er ekki ástæða fyrir almenning að sjóða neysluvatn. Vatnið í dreifikerfinu endurnýjar sig fljótt og hefur allt verið gegnumlýst frá því að bilunin uppgötvaðist. Gert var við tækið sem bilunin kom upp í seinni part fimmtudagsins og hafa bæði tækin verið í fullri virkni síðan þá. Veitur vinna nú að því að koma í veg fyrir að sambærilegur atburður geti endurtekið sig.