Hleðsla rafbíla

Áður en ákveðið er hvernig hlaða skal rafbílinn heima er mikilvægt að skoða uppsetningu hleðslulausna. Hér má finna góð ráð og upplýsingar þess efnis.

Veitur taka þátt í stórfelldri uppbyggingu innviða fyrir rafbílaeigendur á sínu veitusvæði. Áður en ákveðið er hvernig hlaða skal rafbílinn heima er mikilvægt að skoða uppsetningu hleðslulausna. Við höfum tekið saman nokkrar áhugaverðar vefsíður fyrir þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í rafbílaeign.

Við mælum með fasttengdum hleðslustöðvum, svokallaðri „hleðsluaðferð 3“, við hleðslu raf- og tengiltvinnbíla. Við mælum ekki með notkun hefðbundinna rafmagnstengla til hleðslu að staðaldri. Sá búnaður er einungis ætlaður til skamms tíma í senn og ætti því ekki að nota til hleðslu rafbíla nema búið sé að takmarka hleðslustrauminn verulega.

Kostir fasttengdra hleðslustöðva:

  • Hraðvirkari og öruggari hleðsla
  • Hægt að fá bæði einfasa og þriggja fasa
  • Hægt að fá bæði með áföstum eða lausum hleðslukapli
  • Hægt að tengja stöðvar saman
  • Hægt að fá með álagsstýringu

Veitur mæla ávalt með vali á snjöllum hleðslustöðvum sem bjóða upp á álagsstýringu fyrir allar tegundir húsnæðis.

Öryggi

Ef þú ert að íhuga kaup á rafmagnsbíl, ættir þú að huga að því að fjárfesta í fasttengdri hleðslustöð og uppsetningu hjá fagaðilia. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mælir með að við hleðslu rafknúinna ökutækja sé notaður sérhæfður búnaður, sem tryggir að hleðslan fari fram á öruggan og áreiðanlegan hátt.

  • Tengistaður skal vera eins nálægt stæði rafbílsins og mögulegt er.
  • Hver tengistaður skal varinn með yfirstraumvarnarbúnaði, t.d. sjálfvari, sem aðeins ver þennan tiltekna tengistað.
  • Hver tengistaður skal varinn með 30mA bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa) sem aðeins ver þennan tiltekna tengistað.
  • Bilunarstraumsrofar ættu að vera af gerð B – ekki má nota bilunarstraumsrofa af gerð AC, sem er algengasta gerðin á markaðnum.
  • Bilunarstraumsrofa af gerð A má nota sé tryggt að DC-bilunarstraumur verði að hámarki 6mA, eða að settur sé upp annar búnaður til útleysingar fari hann yfir 6mA.
  • Færanlegir tenglar (snúrutenglar), t.d. á framlengingarsnúru eða fjöltengi, eru ekki leyfilegir.
  • 16A tengla til heimilis- og ámóta nota (Schuko) ætti ekki að nota til hleðslu rafbíla – sé það gert skal tryggja að hleðslustraumur geti að hámarki orðið 10A.

Örugg hleðsla rafbíla

  • Forðist að hlaða í hefðbundnum innstungum.
  • Ekki nota framlengingarsnúru.
  • Gæta þarf þess vel að tengill fyrir hleðslu eða hleðslustöð hafi trygga jarðtengingu.
  • Bilunarstraumsrofi fyrir lögnina þarf að vera af gerð A eða B, má ekki vera AC.
  • Rafverktakar þurfa að hafa næga þekkingu á aðferðum rafbílahleðslu en Rafiðnaðarskólinn býður upp á námskeið fyrir fagmenn.
  • Á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar má finna upplýsingar um hleðslu rafbíla og raflagnir.

Breyta í þriggja fasa rafmagn

Í flestum tilvikum er hægt að breyta heimtaug úr einfasa yfir í þriggja fasa. Gjald fyrir þessa breytingu er að finna í verðskrá heimlagna.

Ferli fyrir breytingu úr einum fasa í þrjá

  1. Ráða löggiltan rafverktaka: Hafið samband við löggiltan rafverktaka til að framkvæma verkið.

  2. Þjónustubeiðni: Rafverktakinn sendir inn þjónustubeiðni til Veitna í gegnum Mannvirkjastofnun (HMS).

  3. Upplýsingar um afhendingu og kostnað: Tengiliðurinn er upplýstur um afhendingartíma og kostnað, ef einhver er.

  4. Aftenging rafmagns: Veitur taka rafmagnið af í samráði við rafvirkjann.

  5. Breyting á rafmagnstöflu: Rafverktakinn fjarlægir einfasa mælinn og breytir rafmagnstöflunni.

  6. Uppsetning á þriggja fasa rafmagni: Veitur breyta rafmagninu í þriggja fasa og setja upp nýjan mæli.

  7. Tímabókun: Eftir að þjónustubeðni er send inn er allt að 15 dagar þar til tími er bókaður. Að því gefnu að strengurinn sé hæfur fyrir þrjá fasa og að ekki þurfi að gera breytingar né stækka götuskápinn.

Sjá verðskrá fyrir frekari upplýsingar um kostnað.

Hvernig getum við aðstoðað þig?