Veitur vaxa með stækk­andi samfé­lagi

Til að mæta aukinni orkuþörf stækkandi samfélags og tryggja stöðuga afhendingu á heitu vatni til íbúa og fyrirtækja, þarf að byggja hitaveituna upp samhliða og erum við sannarlega að því.

Við erum svo lánsöm á Íslandi að búa við umhverfisvæna hitaveitu sem er ein af grunnstoðum samfélagsins. Hitaveitan gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja aðgengi að hreinni og endurnýjanlegri orku og er jarðvarminn umhverfisvæn og sjálfbær lausn til húshitunar og grænnar atvinnustarfsemi.

Hitaveitan er nefnilega ekki aðeins nauðsynleg fyrir daglegt líf íbúa, heldur einnig lykilatriði í að byggja upp sjálfbæra framtíð þar sem græn starfsemi getur blómstrað en atvinnulíf er jú grundvöllur öflugra samfélaga.

Veitur dreifa heitu vatni um höfuðborgarsvæðið að stærstum hluta og þjónustar heimili og fyrirtæki á stóru svæði. Hitaveitan nýtir jarðvarma, bæði frá lághitaauðlindum í Reykjavík og Mosfellsbæ, og háhita frá virkjununum á Nesjavöllum og Hellisheiði. Jarðvarmavirkjanir Orku Náttúrunnar á Hellisheiði og Nesjavöllum standa undir 60% af heitavatnsnotkuninni en þaðan kemur bæði rafmagn og heitt vatn.

Húshitun er alltaf í forgangi

Í jarðvarmavirkjunum er æskilegt að framleiðsla á rafmagni og heitu vatni sé sem jöfnust allt árið. Notkun á heitu vatni yfir vetrartímann er um tvisvar sinnum meiri en ársmeðaltalið. Hitaveitukerfið okkar er byggt upp til að geta staðið undir hámarkseftirspurninni sem alla jafna stendur ekki yfir nema örfáa daga á ári. Utan þess tíma er kerfið því vannýtt.

Til þess að auka nýtingu og hagkvæmni í kerfinu seljum við heitt vatn til stærri viðskiptavina, svokallaðra stórnotenda sem nýta vatnið til annars en húshitunar. Þessir viðskiptavinir fá orkuna á afslætti en á móti er hægt að skerða til þeirra heita vatnið þegar hart er í ári og forgangsraða þarf húshitun. Þeir eru mikilvægir til að mæta þessum sveiflum í heitavatnsnotkun og geta tekið við umframframleiðslu á heitu vatni yfir sumartímann, þegar eftirspurnin er minni.

Skerðanlegir stórnotendur auka hagkvæmni

Það er því ávinningur á báða bóga að fá stóra skerðanlega notendur í viðskiptahópinn. Það gerir hitaveituna hagkvæmari með því að gera okkur kleift að takast á við afltoppa með skerðingum og minnka þannig fjárfestingar í kerfinu. Auðlindirnar nýtast betur utan álagstíma, tekjurnar aukast á ársgrundvelli, húshitun verður tryggari og græn starfsemi getur blómstrað.

Dæmi um stórnotendur eru ýmis konar atvinnustarfsemi, sundlaugar, og jarðböð en fjöldi þeirra hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Coda Terminal verkefni Carbfix sem unnið hefur verið að í Straumsvík í Hafnarfirði og hefur verið til umræðu undanfarið, yrði einnig skilgreint sem stórnotandi. Gert er ráð fyrir að það muni nota varmaorku í sinni vinnslu og myndu Veitur sjá um afhendingu á þeim varma til að byrja með. Líkt og aðrir stórnotendur getur það átt von á því að lenda í skerðingum þegar nauðsyn þykir til.

Vöxum með vaxandi samfélagi

Til að mæta aukinni orkuþörf stækkandi samfélags og tryggja stöðuga afhendingu á heitu vatni til íbúa og fyrirtækja, þarf að byggja hitaveituna upp samhliða og erum við sannarlega að því. Höfuðborgarsvæðið stækkar hratt og viðmið Veitna eru að eftirspurn eftir heitu vatni til húshitunar aukist að jafnaði um 120 l/s á ári hverju.

Við höfum gert eftirspurnaráætlun til næstu 100 ára og til að standa undir þeirri eftirspurn erum við með skýrt plan þar sem hagkvæmustu kostirnir eru virkjaðir fyrst. Fyrsta verkefnið var að auka nýtingu jarðvarmavirkjananna. Það gerum við með því að hvíla lághitaauðlindirnar okkar, sem við köllum sumarhvíld. Þegar notkun minnkar á sumrin þá færum við alla hitaveituna á virkjanavatn og slökkvum á lághitasvæðunum okkar. Þá hækkar vatnsborðið í lághitaauðlindunum og í lok sumars er vatnsyfirborð komið í hæstu hæðir og eru svæðin tilbúin fyrir áhlaup vetrarins.

Einnig erum við að hámarka nýtingu núverandi lághitaauðlinda með nýrri gerð af borholudælum og þar að auki stendur yfir leit að auknum jarðvarma. Fram undan er stækkun á varmastöðinni í Hellisheiðarvirkjun og jafnframt aukin nýting á varma frá Nesjavöllum.

Mætum aukinni orkuþörf á suðursvæðum

Til að flytja heita vatnið til alls höfuðborgarsvæðisins þarf öflugt flutningskerfi og má segja að þau séu tvö. Annars vegar Suðuræðar sem flytja vatn frá virkjunum og eru á suðursvæðum höfuðborgarsvæðisins og hins vegar Reykjaæðar sem flytja vatn frá lághitasvæðum og liggja frá Mosfellsbæ niður í miðborg Reykjavíkur. Veitur hafa unnið að endurnýjun og stækkun Reykjaæða síðustu áratugi enda voru þær upprunalega lagðar árið 1942 og gengur sú vinna eftir áætlun.

Nú er þörf á því að auka flutningsgetuna á suðursvæðin enn frekar þar sem framleiðsla og notkun þar hefur aukist. Það gerum við t.d. með því að leggja nýja Suðuræð, við hlið núverandi æðar, í samvinnu við Vegagerðina. Nýja Suðuræðin liggur frá Elliðaám og að Jaðarseli og verður tengd núna 19. ágúst.

Þessar umbætur fela í sér stækkun og betri flutningsgetu lagnakerfisins og leiða til betri nýtingar jarðhitaauðlinda og auka afhendingaröryggi. Með aukinni flutningsgetu verður mögulegt að mæta vaxandi orkuþörf á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í Hafnarfirði, sem er mikilvægt fyrir framtíðarþróun svæðisins.

Grænt atvinnulíf í takt við stefnu Veitna

Mörg stór verkefni eru fram undan í íslensku atvinnulífi t.d. tengd iðnaði og ferðamennsku sem munu nýta heitt vatn. Styrking flutningslagna hitaveitunnar, mun auka skilvirkni og afhendingaröryggi. Árangurinn af þessum verkefnum mun hafa jákvæð áhrif fyrir íbúa, iðnað og umhverfi.

Þetta er allt hluti af stefnu okkar hjá Veitum sem er að hafa frumkvæði að sjálfbærum lausnum með árangur samfélagsins að leiðarljósi. Við viljum með nýsköpun og samstarfi veita þessum dýrmætu lífsgæðum sem heitt vatn er, til framtíðar.

Hvernig getum við aðstoðað þig?