Skíðaáhugafólk fagnaði í gær þegar tilkynnt var um að snjóframleiðsla væri hafin í Bláfjöllum. „Við hjá Veitum höfum tekið virkan þátt í þessu skemmtilega verkefni með því að styrkja rafdreifikerfið í Bláfjöllum,“ segir Helgi Guðjónsson leiðtogi Rafveitu hjá Veitum.
Gert er ráð fyrir um 5,3 milljarða kr. fjárfestingu í innviðum vegna skíðaiðkunar til ársins 2026 samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir notendur. Nú þegar er uppsetning á tveimur lyftum lokið, þeim Gosa og Drottningu og nú er uppsetning snjóframleiðslukerfis á lokametrunum.
„Svona framkvæmdum fylgir óhjákvæmilega aukin þörf á raforku enda er bæði lyftubúnaður og snjóframleiðslutækin orkufrek. Veitur leika því mikilvægt hlutverk í uppbyggingunni með því að styrkja rafdreifikerfið á svæðinu. Aflþörfin er um 3600 Amper sem er um það bil jafn mikil raforkunotkun og 75 meðal heimili nota,“ segir Helgi.
Samstarfsaðilar skíðasvæðanna hafa reist mannvirki á svæðinu sem meðal annars hýsa nýja spennistöð Veitna sem ber það virðulega nafn „Drottning“. Í henni má finna tvo 1250kVA spenna ásamt há og lágspenntum búnaði.
„Svona stór framkvæmd krefst mikillar samvinnu og samráðs framkvæmdaraðila, rekstraraðila og allra þeirra sem að þessu koma og við höfum átt gott samstarf með hönnuðum, verkefnastjórum og rekstraraðilum skíðasvæðisins í Bláfjöllum. Að baki svona framkvæmd hjá Veitum liggur mikið vinnuframlag, m.a hjá rafvirkjum, rafveituvirkjum, rafmagnshönnuðum, vélvirkjum og stálsmiðum ásamt mörgum fleirum. Við erum afar ánægð með samstarfið og þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg í þessu flotta verkefni og vonumst til að fá góðan skíðavetur í dúnmjúkum sérframleiddum púðursnjó,“ segir Helgi Guðjónsson að lokum.
Orkuveitan og dótturfélagið Veitur hafa samþykkt samninga við North Tech Drilling ehf. og ítalska fyrirtækið Hydro Drilling S.R.L. um borun allt að 35 jarðhitahola í kjölfar útboðs fyrirtækjanna sem fram fór í ágúst 2024.
Veitur og Reykjavíkurborg stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025, í nóvember síðastliðnum.