Veitur hafa undirritað samkomulag við Kópavogsbæ um umfangsmikla uppbyggingu á hleðsluinnviðum fyrir rafbíla innan bæjarlandsins. Þetta framtak er hluti af víðtækari aðgerðaáætlun í loftslagsmálum höfuðborgarsvæðisins og er í samræmi við stefnu Kópavogsbæjar í loftslagsmálum um að draga úr kolefnislosun og stuðla að orkuskiptum í samgöngum.
„Í samstarfi við Veitur höfum við tekið skrefið í átt að markvissri uppbyggingu á hleðsluinnviðum fyrir rafbíla hér í Kópavogi. Með þessari aðgerð stóraukum við aðgengi að rafhleðslustæðum í Kópavogi,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Í tengslum við þetta samkomulag er stefnt á útboð á fjórtán lykilstaðsetningum innan sveitarfélagsins fyrir uppsetningu allt að 98 rafhleðslustæða. Þessari nýju innviðauppbyggingu er ætlað að mæta vaxandi þörf fyrir hleðslu rafbíla, þar sem eftirspurnin hefur aukist til muna á undanförnum árum.
Samstarf Veitna og Kópavogsbæjar er liður í að ná markmiðum sveitarfélagsins í loftslagsmálum. Samkomulagið mun tryggja skilvirka og hagkvæma uppbyggingu hleðsluinnviða sem gagnast öllum íbúum.
„Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur að vinna að uppbyggingu hleðsluinnviða í Kópavogi í góðri samvinnu við Kópavogsbæ, svo íbúar og aðrir geti með auðveldum hætti hlaðið rafbílana sína. Loftslagsmálin og orkuskiptin eru í forgangi hjá okkur í Veitum og við vinnum stöðugt að því að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.
Hleðslustöðvum er dreift um bæinn og er stefnt að því að hámarka aðgengi og hentugleika fyrir rafbílaeigendur.
Samstarfið er upphafið að frekari aðgerðum í orkuskiptum og sjálfbærni í samgöngum. Kópavogsbær mun halda áfram að vinna að nýjungum og samstarfsverkefnum sem styðja við grænar samgöngur.