Veitur fyrir­mynd­ar­fyr­ir­tæki í rekstri 2024

Veitur hlutu viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri árið 2024. Keldan í samstarfi við Viðskiptablaðið taka saman lista á hverju rekstrarári yfir þau fyrirtæki sem teljast til fyrirmyndar í rekstri.

Veitur eru í hópi opinberra fyrirtækja og sjálfseignarstofnana sem uppfylla ströng skilyrði. Fyrirtækin sem fá viðurkenninguna þurfa að sýna jákvæða rekstrarniðurstöðu, hafa tekjur yfir 45 milljónir króna, eignir yfir 80 milljónir króna og þarf eiginfjárhlutfall að vera yfir 20%. Aðrir þættir eins og skil á ársreikningum og rekstrarform eru einnig metnir.

„Við erum stolt af því að fá þessa viðurkenningu. Við tökum það mjög alvarlega að fara með almannafé og vinnum statt og stöðugt að því að ná betri árangri í okkar rekstri. Öflugur og traustur rekstur er forsenda þess að við getum veitt viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og haft frumkvæði að sjálfbærum lausnum með árangur samfélagsins að leiðarljósi," segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdarstýra Veitna.

Orkuveitan, móðurfélag Veitna hlaut einnig viðurkenninguna sem og Orka náttúrunnar sem einnig er dótturfélag Orkuveitunnar.

Hvernig getum við aðstoðað þig?