Veitur bora nýja holu í Hvera­garð­inum

Veitur stækka með samfélaginu í Hveragerði til að tryggja öllum íbúum heitt vatn til framtíðar.

Veitur eru þessa dagana að undirbúa borun á nýrri holu í Hveragarðinum við varmastöðina Bláskóga. Holan verður nýtt í hitaveituna í Hveragerði, en í Hveragarðinum er nú þegar ein borhola sem nýtist vel. Áætlað er að borun ljúki fyrir lok október og holan verði tilbúin til nýtingar á nýju ári.

Veitur munu vakta Varmá á meðan borun stendur, enda mun umfram vatn renna í ánna á meðan framkvæmd stendur. Lífríki í og við ána á ekki að vera ógnað með framkvæmdinni, en við viljum hafa varann á og vakta svæðið samt sem áður.

Bráðabirgðalagnir fyrir vatn úr Varmá sem er notað við borunina munu liggja ofanjarðar að svæðinu. Þær verða fjarlægðar þegar borun lýkur og gengið frá öllu yfirborði.

Veitur vaxa með samfélaginu

Hveragerði er vaxandi samfélag og Veitur vaxa með bænum. Borholan (HS-08) sem nýtt er í dag annar eftirspurn hitaveitunnar, en það þarf reglulega að takmarka notkun á gufuveitu yfir köldustu mánuðina.

Borholur hitaveitu í Hveragerði eru sérstakar að mörgu leyti, ekki hvað síst vegna hás hita, en þær eru 170°C sem er mjög heitt. Á lághitasvæðum eru borholur yfirleitt á bilinu 60-90°C svo munurinn er mikill.

Núverandi borhola hefur verið nýtt lengi en fyrstu árin var hún eingöngu nýtt í gufuveitu. Árið 2020 var í fyrsta sinn í heiminum settur dælubúnaður ofan í svo heita holu og verkið var þróunarverkefni í samvinnu við framleiðanda dælunnar. Síðan þá hefur búnaður af þessu tagi verið nýttur víðar í heiminum, m.a. í Tyrklandi.

Hitaveitan í Hveragerði er hringrásarkerfi þar sem varmaskiptar nota heita vatnið frá borholunni til að endurhita volgt vatn sem kemur til baka frá hitakerfum húsa. Þannig er vatnið endurnýtt og hitað upp að nýju, en alla jafna er það um 35-40°c þegar það kemur aftur inn í varmastöðina við Bláskóga.

Nánar um Borholu HS-08 (núverandi hola)
Lokadýpi: 253,9 metrar
Fóðringardýpi: 118,4 metrar
Holuvídd, mest/minnst: 381mm/222,25mm
Upphaf borunar: 28.07.1989
Nafn bors: Narfi
Borfyrirtæki: Jarðboranir hf.
Tilgangur: Gufuöflun
Tegund borunar: Bein hola

Hvernig getum við aðstoðað þig?