Heiðmörk hefur um áratugaskeið verið eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins og Veitur vilja að svo verði áfram. Í vinnu við nýtt deiliskipulagi borgarinnar fyrir Heiðmörk, sem Veitur hafa tekið þátt í, hefur verið lögð áhersla á að tryggja gott samspil útivistar, skógræktar og vatnsverndar. Gert er ráð fyrir að vinnunni ljúki í upphafi næsta árs en deiliskipulagið er forsenda uppbyggingar á nýjum bílastæðum í nágrenni Heiðmerkur. Lagt er upp með að bílastæði fyrir gesti verði staðsett þannig að aðgengi almennings verði áfram gott og hægt verði að nýta Heiðmörkina í fjölbreytta viðburði og útivist, hér eftir sem hingað til.
Í kjölfar eldsumbrotanna við Grindavík hafa Veitur, líkt og önnur innviðafyrirtæki, endurmetið áhættur í rekstri sínum og leggur fyrirtækið höfuðáherslu á að bæta forvarnir í kringum viðkvæma innviði. Þá sérstaklega innviði sem kunna að verða fyrir áhrifum af jarðhræringum, mengun eða öðrum ytri áföllum sem dunið geta á þjóðinni. Takmörkun á umferð bíla um þetta viðkvæma og mikilvæga svæði er hluti af þessum forvörnum enda er þar að finna öll vatnsból höfuðborgarsvæðisins.
Veitur bera ábyrgð á að færa höfuðborgarbúum hreint ómengað neysluvatn til framtíðar og mengun vegna bílaumferðar er talin mesta ógnin við vatnsgæði íbúa. Slys hafa orðið, í og við Heiðmörk, í gegnum árin og mikil mildi þykir að ekki hafi lekið olía niður í vatnsbólin og mengað þau.
Þess má geta að Veitur gerðu á sínum tíma athugasemdir við legu Suðurlandsvegar á skipulagsstigi með tilliti til vatnsverndar. Þjóðvegurinn er þó aðeins á fjarsvæði vatnsverndarsvæðisins en Heiðmörkin sjálf er að mestu á grannsvæði og brunnsvæði vatnsbóla sem eru viðkvæmust fyrir mengun. Þar þurfa því strangari aðgangskröfur að gilda líkt og sjá má á vef Veitna þar sem upplýsingum um kröfur til viðburðahalds er miðlað til almennings. Eftir að aðangskröfurnar voru auknar síðasta vor og hefur verið veitt leyfi til fjölda viðburða síðan þá en nokkrum erindum hefur einnig verið synjað, svo sem vegna kvikmyndatöku og jólatréssölu sem kallað hefði á mikla umferð bifreiða um svæðið.
Ekki verður dregið úr aðgengi til útivistar í Heiðmörk en Veitur vilja að hún geti áfram tekið á móti fjölbreyttum hópum sem nýta svæðið s.s. til hjólreiða, útreiðatúra, göngu,- hlaupaiðkunar og skíðagöngu svo eitthvað sé nefnt. Þá mun umferð farartækja á vegum Skógræktarinnar og Veitna áfram verða leyfð innan friðlandsins. Hvað varðar Ríkishringinn vinsæla verður stígurinn endurbætur og færður að hluta að kröfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Hugmyndir Skógræktarfélagsins um færslu á vatnstökusvæðum til þess að hægt sé hafa opið fyrir bílaumferð hafa verið skoðaðar og er það mat Veitna að það sé ekki góð ráðstöfun á fjármunum en öll vatnsból á Heiðmerkursvæðinu eru nauðsynleg sem vatnsból höfuðborgarbúa til framtíðar. Áherslur Veitna byggja meðal annars á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, Aðalskipulagi Reykjavíkur og Vatnsverndarsamþykkt höfuðborgarsvæðisins sem tók gildi árið 2015. Ríkari kröfur voru gerðar í kjölfar hennar og meðal annars er skylt að sækja um leyfi til Heilbrigðiseftirlitsins vegna viðburðahalds. Þá þarf einnig leyfi Veitna sem rekstraraðila vatnsveitunnar og Orkuveitunnar sem landeiganda.
Verði áherslur Veitna að veruleika mun almennri umferð bíla verða stýrt inn á nokkur ný bílastæði en staðsetningar þeirra eru óútfærðar. Gert er ráð fyrir að bílastæðin verði á stöðum þaðan sem aðgengi að göngu- og hlaupaleiðum og öðrum vinsælum útivistarsvæðum er gott og að gestir Heiðmerkur þurfi ekki að ganga langan veg til að njóta útivistar.
Líkt og fram hefur komið þá er deiliskipulagsvinna á vegum borgarinnar í gangi vegna Heiðmerkur þar sem verið er að skoða nánari útfærslur. Skógræktarfélag Reykjavíkur er þar við borðið enda stór hagaðili á svæðinu. Ríkur vilji er hjá Veitum til að koma til móts við þá aðila sem standa fyrir reglulegum viðburðum í friðlandinu og vinna í sameiningu að nýjum leiðum í umgengni um svæðið á sama tíma og gætt er fyllsta öryggis við vatnsbólin.
Nánar um hreint vatn og Heiðmörk
https://www.veitur.is/frettir/hreint-vatn-fra-heidmork-til-framtidar
https://www.veitur.is/vatnsvernd
Vegna umfjöllunar um vatnsverndarsvæðin í Heiðmörk í Morgunblaðinu 17.apríl vilja Veitur koma eftirfarandi á framfæri.
Veitur bjóða til spennandi Nýsköpunarfestivals í Elliðaárstöð 3.- 5. júní. Opnað hefur verið fyrir skráningu.