Reykjavíkurborg og Veitur stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2024, í desember síðastliðnum en Veitur eru aðalbakhjarl Vetrarhátíðar næstu þrjú ár.
Verkin Glitsteinar, eftir Katerina Blahutova, myndlistarkonu og Francesco Fabris, hljóðlistamann og Hafnar.haus Hringekja, eftir Owen Hindley, stafrænan myndlistarmann urðu fyrir valinu og hlýtur listafólkið styrk upp á eina milljón króna fyrir hvort verk. Upphæðinni skal varið í framkvæmd verksins og þóknun til listafólksins og rennur stuðningur Veitna að öllu leyti til vinningshafanna. Markmið samkeppninnar var að virkja hugvit og nýsköpun sem styður við skapandi og lifandi borg.
„Við í Veitum óskum vinningshöfum til hamingju og þökkum öllu listafólkinu sem sendi inn tillögur kærlega fyrir þátttökuna. Það er ánægjulegt fyrir okkur að styrkja gerð þessara ljóslistaverka sem lýsa upp myrkasta skammdegið enda vinnum við með rafmagn á hverjum degi og það er okkar hlutverk að tryggja heimilum þessi lífsgæði“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.
Dómnefnd fór yfir innsendar tillögur og í rökstuðningi hennar um verkið Glitsteina sagði meðal annars: „Verkið er ljósaskúlptúr sem kallar fram tengingar við veturinn og myrkrið, en líka við samband manns og náttúru. Manngerðir ísmolar úr meðhöndluðu plasti minna á fallvaltleika jökulíss og hlut mannsins í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í náttúrunni. Staðarval er forvitnilegt og mun verkið koma vegfarendum sem eiga leið hjá á óvart.“
Þá kom eftirfarandi meðal annars fram í rökstuðningi dómnefndar um verkið Hafnar.haus Hringekja: „Hugmyndin um að virkja samfélag skapandi listamanna í listamannareknum vinnustofum á Vetrarhátíð er opin og áhugaverð. Eins og hún er byggð upp býður hún upp á fjölbreytta nálgun ólíkra verka og sýnileika þess hóps sem starfar í Hafnarhaus um leið og vakin er athygli á óvenjulegu sjónarhorni í bæjarmyndinni.“
Í dómnefnd samkeppninnar sátu Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður, Sesselja Jónasdóttir, verkefnastjóri List í ljósi og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri Listasafns Reykjavíkur. Keppnisritari og trúnaðarmaður var Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg.
Orkuveitan og dótturfélagið Veitur hafa samþykkt samninga við North Tech Drilling ehf. og ítalska fyrirtækið Hydro Drilling S.R.L. um borun allt að 35 jarðhitahola í kjölfar útboðs fyrirtækjanna sem fram fór í ágúst 2024.
Veitur og Reykjavíkurborg stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025, í nóvember síðastliðnum.