Hægt er að fylgjast með beinu streymi frá Reynisvatnsheiði þar sem Veitur eru að byggja nýjan hitaveitutank. Á Reynisvatnsheiði skammt ofan við Grafarholt eru tankar sem gegna mikilvægu hlutverki fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.
Heita vatnið sem notað er á höfuðborgarsvæðinu kemur annars vegar frá lághitasvæðum í Mosfellsbæ og Reykjavík (Laugarnesinu og Elliðaárdal) og hins vegar frá virkjunum á háhitasvæðum á Nesjavöllum og á Hellisheiði.
Í umrædda tanka sem eru fjórir talsins á Reynisvatnsheiði safna Veitur heita vatninu sem kemur frá virkjunum. Hver tankur rúmar um 9.000 rúmmetra af u.þ.b. 80 gráðu heitu vatni og mun tankurinn sem nú er í byggingu verða sá fjórði í röðinni og er af sömu stærð.
Því meira magn sem við getum geymt í tönkum okkar á Reynisvatnsheiði því tryggara er afhendingaröryggið hjá okkur yfir kaldasta tíma ársins. Við lentum t.d. í ákveðnum vandræðum síðasta vetur sem var einn sá kaldasti sem við höfum séð lengi. Stefnt er að því að taka þennan tank í notkun í desember sem kemur sér vel fyrir höfuðborgarbúa.
– Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna
Hægt er að fylgjast með beinu streymi frá byggingu hitaveitutanksins á Reynisvatnsheiði hér fyrir neðan.
Við erum himinlifandi yfir að vera aftur komin í úrslit í stærstu þjónustukeppni Evrópu og í þetta sinn fyrir nýtingu gagna í þágu viðskiptavina.
Veitur vekja athygli á svikaskilaboðum þar sem viðtakendur eru beðnir að smella á hlekk til að velja raforkusala eða staðfesta þjónustu.