Tæknin nýtt til að finna leka snemma

Lagnir sem byrja að leka er best lagfæra strax, áður en þær fara að valda tjóni eða hættu í umhverfinu og sóa vatninu sem er okkur svo mikilvægt.

Dreifikerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu eru mörg þúsund kílómetrar af lögnum af öllum stærðum og gerðum. Vatnslagnir, hvort sem þær eru fyrir heitt eða kalt vatn, geta byrjað að leka smám saman án þess að nágrennið verði vart við það.

Lagnir sem byrja að leka er best lagfæra strax, áður en þær fara að valda tjóni eða hættu í umhverfinu og sóa vatninu sem er okkur svo mikilvægt. Stærri lekar eru oft augljósir, sérstaklega í heita vatninu þegar gufan stígur upp og grasið soðnar í hitanum. Kostnaður og umhverfisáhrif við að lagfæra leka þegar þeir eru orðnir það stórir að þeir sjást á yfirborði er margfalt meiri en viðgerð á lekri lögn sem finnst við almenna lekaleit.

Lekar fundnir með hljóði og mynd

Veitur vilja ná lekunum á meðan þeir eru smáir, en það er hægara sagt en gert þegar allt er neðanjarðar og engin merki á yfirborðinu. Starfsfólk Veitna nýtir því tæknina til að greina leka í lögnum og það er gert markvisst og skipulega.

Til að finna smærri leka í hitaveitulögnum eru notuð flygildi (drónar) með hitamyndavélum sem fljúga um göturnar eina af annarri. Þannig er hægt að sjá hvar lekar lagnir geta verið og bregðast strax við þeim. Besti tíminn fyrir slíka myndatöku er að vetri þegar umhverfið er kalt og sýnir andstæðurnar á hitastigi vel.

Kalda vatnið verður að greina á annan hátt þar sem enginn hiti er til staðar. Þá er hlustað eftir hljóðum í lögnum sem leki getur gefið frá sér þegar vatnið þrýstist út. Staðsetningin er þó ekki alltaf augljós og það kemur fyrir að grafa þurfi niður á lögn til að fullvissa sig um stöðuna. Veitur eru með staðbundinn hljóðhlustunarbúnað í lagnakerfinu í vissum hverfum sem geta gefið til kynna leka á ákveðnu svæði, en leita þarf þá betur til að finna upprunann svo hægt sé að gera við.

Ástæður leka

Ástæður leka eru margvíslegar, en algengasta orsökin er skemmd á rörum og kápunni utan um lagnirnar eftir að óvart er grafið í þær. Þegar kápa er skemmd getur lögnin byrjað að tærast og leka með tímanum og það styttir líftíma hennar. Veitur vildu helst að öll sem grafa óvart í lagnir myndu láta vita, líka þegar grafan snertir einungis lítillega kápuna, því það er ódýrara, skilvirkara og umhverfisvænna að gera strax við það áður en leki verður.

Veitur hvetja framkvæmdaaðila til að skoða vel lagnaleiðir áður en grafið er og leita ráða hjá starfsfólki ef vafi leikur á staðsetningu. Skilningur er þó sýndur ef slys verða og vatnslagnir skemmast óvart.

Hitveituleki vid bakka


Hitaveituleki i gotu

Hvernig getum við aðstoðað þig?