Veðurfarið á Íslandi þekkjum við vel, þó kuldinn, norðanvindurinn og slabbið vilji gleymast með hækkandi sól. Þegar dagarnir lengjast og frost fer úr jörðu hefst tími framkvæmda hjá Veitum. Þá birtast skurðirnir, fólk í sýnileikafatnaði og götulokanir með sínum misflóknu hjáleiðum.
Veitur eru sannarlega ekki þau einu sem birtast um allan bæ að vori, en líklega þau með dýpstu skurðina, enda liggja allar okkar lagnir undir yfirborðinu. Ástæðan fyrir legu lagnanna eru margvíslegar og ekki þær sömu fyrir allar lagnir. Fráveitan er neðst og ástæðan fyrir því er fyrst og fremst af hreinlætisástæðum, m.a. sýkingavarnir. Kalda vatnið er betur varið ofan í jörðinni því á yfirborði gæti það frosið á veturna en hitnað um of á sumrin.
Vetrarveður gerir það nánast ómögulegt að vinna í lögnunum, þar sem frostið hefur slæm áhrif á líftíma þeirra. Vont veður getur sett framkvæmdir aftur um vikur og mánuði. Frosinn jarðvegur er erfiðari viðfangs og hann þarf jafnvel að fleyga, en það þýðir bæði aukið kolefnisspor og ónæði fyrir nágrennið. Þess vegna nýtum við tímann og hlýindin vel á sumrin.