Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, hefur tekið sæti í stjórn Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu Veitna, tekur sæti sem varamaður í stjórn. Konur eru í meirihluta stjórnar í annað sinn í tæplega þrjátíu ára sögu samtakanna. Kynjahlutfall er jafnt þegar aðal- og varamenn eru taldir.
„Það er ánægjulegt að taka sæti í fjölbreyttri stjórn Samorku,“ segir Sólrún. „Það bíða okkar afar brýn verkefni og mikilvægt að við leggjumst öll á eitt til að vernda og bæta þessa ómissandi innviði og lífsgæði sem eru okkar viðfangsefni á hverjum degi. Ég hlakka til að taka þátt í því að takast á við áskoranirnar fram undan með sjálfbærni að leiðarljósi, í takt við framtíðarsýn okkar hjá Orkuveitunni um að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar.“
Frá Orkuveitunni er einnig Harpa Pétursdóttir hjá ON, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, varamaður í stjórn.
Hér má lesa nánar um nýja stjórn Samorku og ársfund samtakanna sem fram fór í gær.