Skurð­lausar fram­kvæmdir betri fyrir umhverfi og samfélag

Veitur leita sífellt leiða til að vinna með lausnir sem hafa sem minnst umhverfisáhrif og eru hagkvæmari notkun á almannafé. Þannig bætum við nauðsynlega innviði til að viðhalda lífsgæðum fyrir alla íbúa. 

Ný aðferð við endurnýjun vatnslagna er nú prófuð við Sogaveg í Reykjavík. Þar er hluti af stofnlögn vatnsveitunnar endurnýjuð með svokallaðri fóðrun þar sem nýtt rör er sett innan í eldra rör án þess að grafa þurfi alla lögnina upp.   

Með þessum hætti er dregið verulega úr kolefnisspori framkvæmdarinnar auk þess sem hún verður hagkvæmari og veldur minna raski.  

Stytta framkvæmdatíma

Fóðrun er hluti af skurðlausum lausnum sem stytta  framkvæmdatíma á hverjum stað, en sem dæmi má nefna að skurður á þessum stað og útskipting á lögnum hefði í heildina hæglega geta orðið fjórir mánuðir við bestu mögulegu aðstæður sem eru ekki til staðar þarna. Framkvæmdatíma er með þessum hætti hægt að lágmarka, spara fé og minnka umhverfisáhrif. 

Veitur hafa nýtt aðferðina töluvert til að lengja líftíma fráveitulagna, en framkvæmdin við Sogaveg er sú fyrsta á neysluvatnslögn. Á þröngu svæði milli Sogavegar og Byggðarenda liggur stofnlögn vatnsveitu frá 1960 sem tryggir stóru svæði kalda vatnið. Lögnin er úr steinsteypu, en þegar slík rör gefa sig þá gera þær það alla jafna með miklum látum og tilheyrandi tjóni í nágrenninu. Veitur vinna því jafnt og þétt að endurnýjun slíkra lagna víða um veitusvæðið.  

Skurðlausar lausnir í sífelldri þróun

Vegna þess hve takmarkað svæði er til athafna þar sem lögnin liggur á milli húsa var ákveðið að láta reyna á þessa lausn. Kalda vatnið er flokkað sem matvæli og áríðandi að gæta fyllstu varúðar við vinnuna og erlendir sérfræðingar voru fengnir til að hafa yfirumsjón með fóðruninni sjálfri . Þau koma með búnaðinn frá Noregi til að liðsinna Veitum, en þar í landi hefur lausnin verið notuð lengur á neysluvatnslagnir með góðum árangri.  

Ef vel tekst til með fóðrun á lögninni á þessum stað munu Veitur leitast við að nota þessa aðferð á fleiri stöðum. Vissulega verður enn þörf á  skurðum þar sem nauðsynlegt er að skipta lögnum alfarið út. Lausnir af þessu tagi eru í sífelldri þróun sem Veitur fylgjast vel með og hafa í hyggju að nýta sér að hluta eða fullu í framkvæmdum næstu árin og áratugina.  


Hvernig getum við aðstoðað þig?