Orkuveitan og dótturfélagið Veitur hafa samþykkt samninga við North Tech Drilling ehf. og ítalska fyrirtækið Hydro Drilling S.R.L. um borun allt að 35 jarðhitahola í kjölfar útboðs fyrirtækjanna sem fram fór í ágúst 2024.
Stefnt er að því að bora fyrstu holuna í ágúst 2025.
Samningurinn felur í sér borun jarðhitahola í þremur flokkum:
Flokkur 1: Borun tíu grunnra jarðhitahola fyrir efnahagslega könnun og vinnslu.
Flokkur 2: Borun ellefu djúpra jarðhitahola og rannsóknarhola, auk möguleika á átta viðbótarholum.
Flokkur 3: Stefnuáknúnar boranir á fjórum jarðhitavinnsluholum, auk möguleika á tveimur viðbótarholum.
Heildarskuldbindingin samkvæmt samningnum nemur um 4.600 milljónum króna, en þetta var lægsta boð sem barst í útboðinu. Kostnaðaráætlun verkefnisins var rúmlega 5.967 milljónir króna, og því fellur tilboðið vel innan áætlaðs kostnaðar.
Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni, segir verkefnið mikilvægt fyrir framtíðarsýn fyrirtækisins:
„Við höfum sett okkur skýr markmið um að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar og leiðandi í orkuskiptum. Með þessari framkvæmd tryggjum við áframhaldandi orkuöflun til að mæta ört vaxandi þörf samfélagsins og stuðlum að ábyrgri auðlindanýtingu í sátt við umhverfið. Okkur hlakkar til samstarfsins og þetta verkefni er skýr vísbending um að við ætlum að sækja fram í orkuöflun og tryggja nægt framboð af sjálfbærri orku til framtíðar.“
Hrefna Hallgrímsdóttir forstöðumaður vatnsmiðla Veitna segir þetta miklvægt skref.
„Það er mikilvægt að við höldum ótrauð áfram að bora og leita eftir nýjum jarðhitaauðlindum því orkuþörf til húshitunnar og grænnar atvinnustarfsemi fer stöðugt vaxandi í takt við stækkandi samfélag. Því fleiri auðlindir og vinnslusvæði sem við tengjum við hitaveituna, því betur náum við að anna aukinni eftirspurn, auk þess sem rekstraröryggið eykst. Nú nýlega urðu tímamót í jarðhitaleit Veitna þegar tvö ný jarðhitasvæði fundust innan höfuðborgarsvæðisins sem er mjög ánægjulegt, því hitaveitan er ekki aðeins nauðsynleg fyrir daglegt líf íbúa, heldur líka lykilatriði í að byggja upp sjálfbæra framtíð.“
Við undirritun samningisin á verkstæði Veitna í gær sagði Geir B. Hagalínsson, forstjóri North Tech Drilling:
„Það er mikill heiður fyrir okkur að hafa fengið þennan samning ásamt samstarfsaðilum okkar í Hydro Drilling. Nútímaleg nálgun Orkuveitunnar og Veitna um lækkun kolefnisspors með rafvæðingu og öðrum nýjungum fellur fullkomlega að okkar markmiðum "Green Drilling Method". Teymið okkar er meðal þeirra reyndustu í heimi og fyrstu verkefnin voru á Íslandi en í dag eru borholur okkar um allan heim - í hitabeltisfrumskógum, þurrum eyðimörkum og hátt uppi í Himalajafjöllunum. Það er dýrmætt fyrir okkur að hefja nú vinnu á jarðhitasvæðum sem við þekkjum svo vel og höfum reynslu að vinna á. Við lítum á þetta verkefni sem upphafið að nýjum tímum - tímum ódýrari og grænna borana á Íslandi.”
Verkið styður við stefnu Orkuveitunnar og Veitna um aukna sjálfbæra orkuvinnslu, ábyrgari nýtingu auðlinda og undirstrikar mikilvægi nýsköpunar og samstarfs til að mæta vaxandi orkuþörf samfélagsins.