Við erum að kalla til fjölbreyttan hóp fólks til að leysa aðkallandi áskoranir í orku-og veitumálum sem snerta okkur öll og hafa áhrif á allt samfélagið.
Þetta er spennandi vettvangur fyrir þau sem hafa áhuga á að leysa stór verkefni með skapandi hugsun og samstarfi. Um hundrað manns taka þátt í hönnunarsprettum (e. design sprint) þar sem fundnar verða lausnir við mikilvægum verkefnum.
Við blásum svo til skemmtunar og höldum tónleika þann 5. júní milli 17.00-19.00 Verið öll velkomin! Nánar auglýst síðar.
Frábærir gestir
Við fáum frábæra gesti og fyrirlesara til okkar. Þar á meðal eru Max McShane yfirmaður Stafrænnar umbreytingar hjá Octopus Energy í London, Bergur Ebbi Benediktsson framtíðarfræðingur, Dr. Angela MacOscar sviðsstjóri Nýsköpunar hjá Northumbrian Water í Englandi og Sandra Barilli mun halda utan um viðburðinn og sjá til þess að það verði gaman.
Saman breytum við áskorunum í lausnir!
„Þetta er í fyrsta sinn sem við höldum Nýsköpunarfestival Veitna en það hefur verið draumur okkar lengi. Við höfum farið á þannig viðburði erlendis og séð með eigin augum hvernig fjölbreyttur hópur getur leyst flókna hluti á stuttum tíma. Við hjá Veitum vitum auðvitað ekki allt og þess vegna er mikilvægt að víkka út sjóndeildarhringinn með margskonar þekkingu, sérstaklega með fólki sem kemur kannski kalt að borðinu og sér hlutina öðruvísi en við. Nýsköpun og samstarf er það sem við viljum vinna með og þannig verða nýjar tengingar til. Við ætlum að takast á við raunverulegar áskoranir sem við og samfélagið stöndum frammi fyrir og ætlum að finna skapandi lausnir sem munu skila árangri til framtíðarkynslóða,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna.
Opið fyrir skráningu- Taktu þátt!
Hér getur þú lesið allt um Nýsköpunarfestivalið og skráð þig til leiks. Við hvetjum ykkur til að taka þátt og öðlast reynslu í hönnunarsprettum og kynnast fólki úr ólíkum atvinnugreinum. Ekki er hægt að tryggja að allir umsækjendur fái pláss en 20 manns taka þátt í fimm sprettum.
Áskoranirnar eru:
• Hvernig má tryggja góða innviði í stækkandi borg?
• Hvernig sköpum við virði úr úrgangi?
• Hvernig styttum við framkvæmdatíma?
• Hvernig lítur fráveita framtíðarinnar út?
• Hvernig vöktum við kerfin okkar og miðlum til viðskiptavina?
Við hlökkum til að sjá ykkur!