Nýir deild­ar­stjórar hjá Veitum

Kristín Huld Þorvaldsdóttir og Þórður Bjarki Arnarson hafa verið ráðin deildarstjórar hjá Veitum.

Kristín Huld og Þórður starfa á sviði Stafrænnar umbreytingar hjá Veitum. Sviðið ber ábyrgð á þróun og eflingu stafrænna innviða Veitna þar sem lögð er áhersla á viðskiptagreind og gagnavísindi. Þau hafa þegar hafið störf.

Kristín Huld tók við starfi deildarstýru Viðskiptagreindar og þróunar. Kristín kemur til Veitna frá Símanum þar sem hún starfaði í 18 ár, síðast sem deildarstjóri Internets. Hún er með MSc. í Stjórnun og stefnumótun og BSc í Alþjóðamarkaðsfræði.

Þórður Bjarki tók við starfi deildarstjóra þróunar stjórnkerfa. Hann hefur meðal annars starfað sem deildarstjóri hjá CCP Games og forstöðumaður hugbúnaðarþróunar hjá Lucinity.

„Það er frábært að fá Kristínu og Þórð í metnaðarfullan hóp okkar hjá Veitum. Þau munu gegna lykilhlutverki í stafrænni þróun fyrirtækisins með það að markmiði að hámarka árangur, tryggja skilvirkni og greina ný tækifæri fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, forstöðukona Stafrænnar umbreytingar hjá Veitum.

Hvernig getum við aðstoðað þig?