Leka­leit með drónum

Veitur leita að duldum lekum í hitaveitunni

Undanfarna vetur hafa Veitur nýtt tæknina til að finna leka sem leynast undir yfirborðinu. Stórir lekar í hitaveitunni fara sjaldnast framhjá vegfarendum því þeim fylgir gufa og jafnvel sjóðheitt vatn á yfirborðinu. Veitur vilja þó finna lekana fyrr, enda minni umhverfisáhrif og kostnaður af lagfæringu leka þegar þeir finnast snemma. Lekaleitin er gerð með hitamyndavélum sem eru í flygildi (dróna) og þá er hægt að sjá hvar eru smærri lekar sem gott er að gera við áður en þeir stækka og verða erfiðari viðfangs.

Flygildi (dróna) er þá flogið um fyrirfram ákveðin hverfi. Einungis er flogið yfir götunni til að skoða dreifilagnir, en ekki er flogið inn í garða hjá fólki eða nálægt húsum. Leka á lögnum Veitna sem finnast er þá hægt að gera við strax. Það kemur fyrir að lekar í snjóbræðslum húseigenda sjást og þá eru viðskiptavinir látnir vita af því, enda oft erfitt að greina slíkt á yfirborði.

Veitur láta ávallt vita áður en lekaleitin fer í hverfi með dróna og starfsfólkið er merkt Veitum. Á næstu vikum verður lekaleit í Fossvogi, Lauganeshverfi, Túnum ásamt Safamýri og nágrenni. Lekaleit með hitamyndavél er aðeins möguleg í stillu og þegar svalt er úti.

Frétt frá október 2024 um hvernig Veitur nýta tæknina til að finna leka snemma.

Hvernig getum við aðstoðað þig?