Hreinsi­bún­aður hita­veitu fyrir Vest­ur­bæinn og Laug­ar­nesið

Ný lausn til að hreinsa náttúruleg óhreinindi úr heita vatninu

Heita vatninu frá lághitasvæðum fylgja náttúruleg óhreinindi og þau eru eðlilegur fylgifiskur hitaveitunnar. Óhreinindin eru ástæðan fyrir því að það eru síur við inntak hitaveitu í öllum húsum til að tryggja að heita vatnið renni óhindrað í kranana.

Á einstaka svæðum hafa síurnar ekki undan og þarfnast reglulegrar hreinsunar. Til að fanga óhreinindin áður en þau berast heim til íbúa ætla Veitur að setja búnað á dreifilagnir á þessum tveimur stöðum fyrir komandi vetur.

Hreinsun á síum færð frá heimilum fólks

Í Laugarnesinu verður settur upp síuskápur á gangstétt og sú aðgerð tekur einn dag. Þá verður heitavatnslaust á afmörkuðu svæði á meðan. Það er bráðabirgðalausn þar til sérsmíðaður búnaður verður tilbúinn og hægt að setja hann í dælustöðina sjálfa fyrir svæðið.

Í Vesturbænum þarf að fara í meiri aðgerðir til að fanga óhreinindin fyrr. Það eru annars vegar síur í dælustöð við Fornhaga og hins vegar síur á stofnlögn í grasbala á horni Nesvegar og Kaplaskjólsvegar. Þar þarf að setja upp lítið hús yfir síubúnaðinn til að verja vegfarendur og búnaðinn sjálfan. Húsið er til bráðabirgða þar til varanleg lausn er komin fyrir svæðið. Reykjavíkurborg hefur gefið leyfi fyrir húsinu.

Heitavatnslaust og þrýstingsfall í Vesturbænum

Þegar unnið verður við dælustöðina við Fornhaga þá þarf að loka fyrir heita vatnið á stóru svæði í Vesturbænum sunnan Hringbrautar. Það verður gert 9. október og mun standa frá því um átta um morguninn til um klukkan fjögur síðdegis, sjá nánar hér. Hluti af Vesturbænum sunnan Hringbrautar mun þennan dag einnig finna fyrir mun lægri þrýstingi á heita vatninu.

Viku síðar þarf að vinna aftur í Fornhaga til að klára verkið, en þá verður lágur þrýstingur á heita vatninu hjá flestum íbúum sunnan Hringbrautar en það verður ekki vatnslaust í hverfinu.

Umræddir dagar verða auglýstir með fyrirvara.

Af hverju ekki síur fyrir öll hverfi?

Veitur stefna að því að setja síubúnað víðar í dælustöðvar, en búnaðurinn er sérsmíðaður og það tekur tíma að fá hann fyrir allar dælustöðvar. Þess vegna er forgangsraðað á þau svæði sem hafa orðið fyrir mestum óþægindum vegna óhreininda í heita vatninu og reynslan sýnir að það eru einstaka götur í Vesturbænum og Laugarnesinu.

Hvernig getum við aðstoðað þig?