Hita­veitan í Hvera­gerði

Rekstur borholu í Hveragerði aftur kominn í eðlilegt horf eftir bilun í desember

Borholur hitaveitu í Hveragerði eru sérstakar að mörgu leyti, ekki hvað síst vegna hás hita, en þær eru 180°C sem er mjög heitt. Á lághitasvæðum eru borholur yfirleitt á bilinu 60-90°C svo munurinn er mikill.

Árið 2020 var í fyrsta sinn í heiminum settur dælubúnaður af þessu tagi ofan í svo heita holu og verkið var þróunarverkefni í samvinnu við framleiðandann. Síðan þá hefur sérsmíðaður búnaður af þessu tagi verið nýttur víðar í heiminum.

Veitur pöntuðu nýjan dælubúnað fyrir holuna í byrjun árs 2024 og var hann á leiðinni þegar bilun kom upp í byrjun desember. Komu hans var flýtt, en að auki var ákveðið að panta varadælu og mótor sem lenti í Hveragerði í byrjun vikunnar.

Alla vikuna hefur sérfræðingur frá framleiðanda unnið með starfsfólki Veitna að niðursetningu varabúnaðar og í gærkvöldi var rekstur borholunnar kominn í eðlilegt horf líkt og var fyrir bilun í desember.

Samhliða vinnu við borholuna var í hlýindum vikunnar hægt að setja stóra síu við Sunnumörk í þeim tilgangi að fanga óhreinindi úr hitaveitulögnum áður en það berst í inntakið í húsunum.

Endanlegur búnaður fyrir borholuna er væntanlegur á næstunni og verður skipt út við fyrsta tækifæri.

Fyrirhugað er að bora aðra holu fyrir vaxandi samfélag í Hveragerði og Veitur leggja áherslu á að allir íbúar og fyrirtæki í bænum hafi trygga húshitun og lífgæði til framtíðar.

Hvernig getum við aðstoðað þig?