Veitur eru nú að leggja lokahönd á lagningu Suðuræðar II yfir Elliðaár, en Suðuræð II mun auka afkastagetu og rekstraröryggi hitaveitunnar fyrir stóran hluta höfuðborgarsvæðisins um komandi ár. Í ágúst var hluti hennar tengdur við kerfið, en þá var heitavatnslaust á stóru svæði sem íbúar mættu með áhuga og skilningi. Tengidagurinn var nýttur til að setja loka á Suðuræðina til að undirbúa tengingu við áfangann sem nú er að ljúka. Það gefur möguleika á viðhaldi Suðuræða I og II í framtíðinni án þess að íbúar verði heitavatnslausir á meðan.
Suðuræð II liggur yfir Elliðaár undir brúnni á Breiðholtsbraut. Undanfarin ár hefur átt sér stað víðtækt samráð við hagsmunaaðila á borð við Fiskistofu, Hestamannafélagið Fák, Stangveiðifélag Reykjavíkur og Vegagerðina til að tryggja náttúruvernd á svæðinu um leið og fyllsta öryggis er gætt við veginn.
Suðuræð II komin á sinn stað. Til hægri sést hvar hún heldur áfram undir yfirborðinu
Lífríki Elliðaáa tekið fram yfir hugsanlega sjónmengun
Fiskistofa, Hafrannsóknarstofnun og Stangveiðifélag Reykjavíkur voru á einu máli um að besta lausnin við að koma heitu vatni yfir Elliðaár væri að stóra nýja lögnin færi yfir ána en ekki undir hana. Slíkt tryggir að viðkvæmu lífríki vatnsins er hlíft og rask á árbökkum og gróðri sé í lágmarki.
Sjónmengun með lögnina sýnilega undir brúnni væri helst í augum mannfólksins sem á þar leið um og getur aldrei vegið þyngra en hagsmunir náttúrunnar á svæðinu.
Áfangastaður við Elliðaárnar
Elliðaárdalurinn er samofinn sögu Veitna í hitaveitu, vatnsveitu og rafmagnsframleiðslu. Í dalnum er lághitasvæði sem nýtist til húshitunar í Reykjavík og rafmagnsframleiðsla var í dalnum til ársins 2014.
Í vor verða settir upp bekkir nálægt þeim stað þar sem Suðuræðin þverar Elliðaá. Þar verður notalegur áningarstaður með upplýsingum umsögu hitaveitunnar þar sem vegfarendur geta notið náttúrunnar og fræðst um hitaveituna.
Veitur og Reykjavíkurborg stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025, í nóvember síðastliðnum.
Frá vatnstökusvæðum Veitna í Heiðmörk færum við stórum hluta íbúa og fyrirtækja landsins neysluvatn og þar þurfum við að tryggja gæði þess til langrar framtíðar.