Heil­næmt vatn um langa framtíð

Frá vatnstökusvæðum Veitna í Heiðmörk færum við stórum hluta íbúa og fyrirtækja landsins neysluvatn og þar þurfum við að tryggja gæði þess til langrar framtíðar.

Helsta ógn vatnstökusvæða er mengun og er umferð vélknúinna ökutækja þar stór áhættuþáttur. Verið er að stíga nokkur mikilvæg skref til að tryggja öruggt neysluvatn á höfuðborgarsvæðinu. Vinna við deiliskipulag Reykjavíkurborgar fyrir Heiðmörk er hafin og er gert ráð fyrir að henni ljúki seint á næsta ári. Hún mun móta framtíðarsýn fyrir svæðið. Orkuveitan, sem stór landeigandi í Heiðmörk, er líka að taka nauðsynleg skref til að hafa áhrif á athafnir sem ógnað geta neysluvatninu innan hennar eignarlands.

Eitt af því sem gjarnan er spurt um er hvers vegna vatnsverndarsvæðin nái niður fyrir vatnstökusvæðin, þ.e. niður fyrir rennslisátt grunnvatnsins. Jón Trausti Kárason, forstöðumaður hjá Veitum, svaraði þeirri spurningu vel í þessari grein sem hann skrifaði í fyrra en í stuttu máli þá eru ástæðurnar þessar:

  • Grunnvatn rennur oft í sprungum og getur stefna og dýpt sprungna ráðið meiru um rennsli vatnsins en hæð landsins í kring.
  • Dæling úr borholum hefur staðbundin áhrif á lækkun vatnsborðs og getur þannig dregið að vatn af svæðum sem lægra standa í landinu.
  • Við ákveðnar aðstæður svo sem leysingar á frosinni jörð getur yfirborðsvatn borist um stór landsvæði, þar á meðal yfir land sem stendur hærra.

Ég skora á okkur öll að vera talsmenn öruggs neysluvatns og stuðla að aukinni meðvitund almennings um mikilvægi verndar þess.


Höfundar greinar er Bryndís Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Sjálfbærni og viðskiptaþróun hjá Veitum.

Hvernig getum við aðstoðað þig?