Bilun varð í Nesjavallavirkjun Orku náttúrunnar í morgun sem orsakaði skerta framleiðslu á heitu vatni. Hluti þeirra véla sem sjá um framleiðsluna eru komnar aftur af stað en virkjunin er ekki á fullum afköstum. Vegna þessa biðja Veitur sem dreifa vatninu til íbúa á höfuðborgarsvæðinu, fólk um að fara sparlega með heita vatnið á meðan á viðgerð stendur.
„Það sem við eigum við þegar við hvetjum fólk til þess að fara sparlega með vatnið er ekki að fólk sleppi því að fara í sturtu. Fyrst og fremst skiptir máli að fólk reyni að halda varmanum inni í húsum sínum og sé ekki með glugga opna að óþörfu eða láti renna í pottinn á meðan á viðgerðinni stendur,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna.
Þá hafa Veitur einnig haft samband við sína stærstu viðskiptavini sem eru á skerðanlegum töxtum og biðlað til þeirra að lágmarka heitavatnsnotkun eins og unnt er. Þetta eru þeir viðskiptavinir sem kaupa heitt vatn á afslætti gegn því að þegar ástand líkt og hér um ræðir skapast, hafi Veitur heimild til skerðinga.
„Við erum að reka tvær hitaveitur á höfuðborgarsvæðinu og það er hlutverk okkar að gera allt sem við getum til þess að halda þeim í jafnvægi. Að biðla til fólks um að minnka notkun og halda hitanum inni er liður í því að tryggja þetta jafnvægi.“
Frekari upplýsingar verða gefnar út þegar þær liggja fyrir.
Uppfært kl. 19:00
Nesjavallavirkjun er nú aftur komin ì fulla framleiðslu en enn er verið að greina orsök bilunarinnar. Tilmæli um að fara sparlega með vatnið eru enn í gildi
Uppfært kl. 21.30
Nesjavallavirkjun er komin ì fulla framleiðslu en enn er verið að greina orsök bilunarinnar. Vonast er til að skerðingum og tilmælum um að spara vatnið verði aflétt snemma í fyrramálið.
Uppfært kl. 12.00 10. október.
Nesjavallavirkjun vinnur nú á fullum afköstum eftir bilun. Skerðingum og sérstökum tilmælum um að fara sparlega með heita vatnið hefur verið aflétt.
Orkuveitan og dótturfélagið Veitur hafa samþykkt samninga við North Tech Drilling ehf. og ítalska fyrirtækið Hydro Drilling S.R.L. um borun allt að 35 jarðhitahola í kjölfar útboðs fyrirtækjanna sem fram fór í ágúst 2024.
Veitur og Reykjavíkurborg stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025, í nóvember síðastliðnum.