Fjar­stýrðar dreif­i­stöðvar rafmagns

Bætt afhendingaröryggi í rafmagni og aukið öryggi starfsfólks

Veitur fagna stóru skrefi í átt að nútíma- og snjallvæðingu rafdreifikerfisins. Nú þegar eru 100 dreifistöðvar fjarstýranlegar og fjarlesanlegar, eða um 10% af þeim tæplega þúsund stöðvum sem Veitur reka. Þetta þýðir að við eðlilegan rekstur þegar flytja þarf álag á milli strengja þá þarf starfsfólk Veitna ekki að fara í þessar stöðvar heldur fjarstýra því.
Það stuðlar að bættu öryggi fyrir starfsfólkið. Við skyndilegt rafmagnsleysi getur búnaður gefið til kynna hvar bilun er staðsett og stytt tíma straumleysis.

Búnaðurinn kallast RTU (remote terminal unit) og er settur í allar nýjar dreifistöðvar rafmagns, en samhliða eru Veitur að uppfæra eldri stöðvar.

„Með því að koma fyrir RTU búnaði í dreifistöðvarnar okkar getum við tryggt að starfsfólk okkar sé ekki lengur útsett fyrir óþarfa hættu þegar við framkvæmum rofahreyfingar. Þetta er mikilvægur þáttur í því að auka bæði öryggi starfsfólks og rekstrar,“ segir Helgi Guðjónsson, deildarstjóri reksturs rafveitu. „Fjarlestur á straumtöku, hitamælingum, rýmishita og fleira í rauntíma gerir okkur kleift að bregðast hratt við atvikum og tryggja stöðugan rekstur rafveitunnar.“

Tæknin gerir Veitum kleift að bregðast við bilunum með snjöllum lausnum og auka áreiðanleika kerfisins viðskiptavinum til hagsbóta, meðal annars með styttra straumleysi í kjölfar bilana.

Veitur eru stoltar af því að vera leiðandi í tækninýjungum sem styrkja bæði öryggi og árangur fyrir viðskiptavini. Áfram verður fjárfest í lausnum sem stuðla að nútímalegum og áreiðanlegum rafdreifikerfum samfélaginu til hagsbóta.

Mynd HG

Helgi Guðjónsson, deildarstjóri reksturs rafveitu

Hvernig getum við aðstoðað þig?