Breytingarnar hafa í för með sér að meðalheimilið (100 m2 íbúð) greiðir 511 kr. meira á mánuði til Veitna fyrir raforku, hitaveitu, kalt vatn og fráveitu, eða alls 6.132 kr. á ári. Meðalheimili með rafbíl greiðir 616 kr. meira á mánuði.
„Hvað varðar hækkun á raforku sérstaklega þá er flutningsgjald Landsnets að hafa áhrif,” segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna. „Veitur innheimta flutningsgjaldið fyrir Landsnet og því fylgir okkar verðskrá þeirra verðskrá hvað það varðar. Nauðsynlegt er að gera breytingar á verðskrám til að standa undir eðlilegu viðhaldi sem og nýframkvæmdum svo hægt sé að tryggja rafmagn fyrir orkuskipti og örugga afhendingu vatns til allra.”
Raforka
Gjöld vegna dreifingar raforku hækka um 1,08%. Þá er hækkun á flutningsgjaldi Landsnets 11,5% en jöfnunargjald helst óbreytt.
Breytingarnar hafa í för með sér að meðalheimili greiðir kr. 175 meira á mánuði eða sem nemur kr. 2.105 á ári fyrir dreifingu og önnur gjöld raforku. Meðalheimili með rafbíl greiðir 280 kr. meira á mánuði.
Við vekjum athygli á því að verð fyrir raforkudreifingu er oft um helmingur rafmagnskostnaðar heimila til móts við raforkusölu sem er tilgreind á reikningi frá raforkusala. Gjöld fyrir raforkudreifingu skiptast svo í gjöld til Veitna, flutningsgjaldið sem Veitur innheimta fyrir Landsnet og svo jöfnunargjald og virðisaukaskatt.
Heitt vatn
Verðskrá Veitna fyrir heitt vatn hækkar um 1,08%. Breytingarnar hafa í för með sér að meðalheimili greiðir 67 kr. meira á mánuði eða sem nemur 807 kr. á ári.
Kalt og heilnæmt vatn
Álögð vatnsgjöld hækka um 3,95% og byggist sú hækkun á breytingum á 12 mánaða byggingavísitölu. Notkunargjöld fyrirtækja hækka um 0,33% í samræmi við þriggja mánaða byggingarvísitölu.
Fráveita
Álögð fráveitugjöld hækka um 3,95%.
Þjónustugjöld
Almenn þjónustugjöld hjá Veitum hækka um 5,07% í samræmi við vísitölu neysluverðs. Seðilgjald hækkar um 52% að mestu vegna hækkunar á póstkostnaði en tilkynningar- og greiðslugjald lækka um 24%.
Eftirfarandi breytingar á verðskrám Veitna taka gildi 1. janúar 2025.
Orkuveitan og dótturfélagið Veitur hafa samþykkt samninga við North Tech Drilling ehf. og ítalska fyrirtækið Hydro Drilling S.R.L. um borun allt að 35 jarðhitahola í kjölfar útboðs fyrirtækjanna sem fram fór í ágúst 2024.