Þann 1. ágúst munu gjöld vegna dreifingar rafmagns hækka um 7,5 prósent. Breytingin hefur það í för með sér að rafmagnsreikningurinn frá Veitum fyrir meðalheimilið hækkar um 250 kr á mánuði eða um 3000 kr á ári.
Samfélagið er að vaxa og því fylgja umfangsmiklar veituframkvæmdir, auk þess sem orkuskiptunum fylgja töluverðar framkvæmdir. Nauðsynlegt er að gera breytingar á verðskránni til að standa undir framkvæmdunum svo hægt sé að tryggja orkuskipti og örugga afhendingu rafmagns til allra.
Rétt er að taka fram að verð fyrir raforkudreifingu er oft um helmingur rafmagnskostnaðar heimila. Aðrir liðir á rafmagnsreikningnum eru flutningsgjald sem Landsnet fær og svo opinber gjöld, jöfnunargjald og virðisaukaskattur. Kostnaður vegna raforku kemur fram á reikningi frá orkusala.