Útleysing varð á öllum vélum í Nesjavallavirkjun Orku náttúrunnar í morgun. Orsök bilunarinnar er óljós en unnið er að greiningu og viðgerð. Þetta gæti haft áhrif á afhendingu heits vatns til viðskiptavina Veitna. Við munum upplýsa hér þegar nýjar upplýsingar berast.
Uppfært kl. 14:00
Unnið er að viðgerð. Enn er of snemmt að segja til um hvort bilunin muni hafa áhrif á viðskiptavini á höfuðborgarsvæðinu. Veitur hafa brugðist við með að nýta tiltækan forða til að tryggja afhendingu heits vatns til viðskiptavina.
Uppfært kl. 16:00
Hluti þeirra véla sem sjá um framleiðsluna eru komnar aftur af stað en virkjunin er ekki á fullum afköstum. Vegna þessa biðjum við fólk um að fara sparlega með heita vatnið á meðan á viðgerð stendur.
„Það sem við eigum við þegar við hvetjum fólk til þess að fara sparlega með vatnið er ekki að fólk sleppi því að fara í sturtu. Fyrst og fremst skiptir máli að fólk reyni að halda varmanum inni í húsum sínum og sé ekki með glugga opna að óþörfu eða láti renna í pottinn á meðan á viðgerðinni stendur,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna.
Þá hafa Veitur einnig haft samband við sína stærstu viðskiptavini sem eru á skerðanlegum töxtum og biðlað til þeirra að lágmarka heitavatnsnotkun eins og unnt er. Þetta eru þeir viðskiptavinir sem kaupa heitt vatn á afslætti gegn því að þegar ástand líkt og hér um ræðir skapast, hafi Veitur heimild til skerðinga.
„Við erum að reka tvær hitaveitur á höfuðborgarsvæðinu og það er hlutverk okkar að gera allt sem við getum til þess að halda þeim í jafnvægi. Að biðla til fólks um að minnka notkun og halda hitanum inni er liður í því að tryggja þetta jafnvægi.“
Uppfært kl. 19:00
Nesjavallavirkjun er nú aftur komin ì fulla framleiðslu en enn er verið að greina orsök bilunarinnar. Tilmæli um að fara sparlega með vatnið eru enn í gildi.
Uppfært kl. 21.30
Nesjavallavirkjun er aftur komin ì fulla framleiðslu en enn er verið að greina orsök bilunarinnar. Vonast er til að við getum aflétt skerðingum og tilmælum um að spara heita vatnið snemma í fyrramálið.
Uppfært kl. 12.00 /10. október.
Nesjavallavirkjun vinnur nú á fullum afköstum eftir bilun. Skerðingum og sérstökum tilmælum um að fara sparlega með heita vatnið hefur verið aflétt.
Veitur og Reykjavíkurborg stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025, í nóvember síðastliðnum.
Frá vatnstökusvæðum Veitna í Heiðmörk færum við stórum hluta íbúa og fyrirtækja landsins neysluvatn og þar þurfum við að tryggja gæði þess til langrar framtíðar.