Veitur eru langt komnar með að skipta út gömlum orkumælum fyrir nýja snjallmæla og er áætlað að allir okkar viðskiptavinir verði komnir með snjallmæla um mitt næsta ár. Í heildina er verið að setja upp 160 þúsund snjallmæla og hefur verkefnið gengið vel.
Með tilkomu snjallmæla þarf fólk ekki lengur að lesa af mælinum heima hjá sér því mælarnir senda Veitum sjálfkrafa gögn um notkun á rafmagni og heitu vatni á heimilinu. Gögnin berast reglulega yfir sólahringinn og gefa einnig upplýsingar um gæði. Snjallmælarnir eru ekki einungis gagnlegir fyrir viðskiptavini sem nú fá tækifæri til að stýra sinni eigin notkun betur heldur er ávinningurinn margvíslegur fyrir Veitur og samfélagið í heild.
Hingað til að hafa Veitur haft takmörkuð gögn um notkun sinna viðskiptavina en með snjallmælunum fáum við innsýn í hvernig notkunin dreifist yfir daginn, vikur eða mánuði. Þannig getum við hjálpað viðskiptavinum að stýra notkun sinni betur og komið fyrr auga á frávik og bilanir. Þannig gefst tækifæri til að spara orku, vernda auðlindina og lækka rafmagnsreikninginn.
Snjallmælar sýna okkur hversu mikið við notum af heitu vatni og rafmagni og hvernig við getum nýtt orkuna á skynsamlegan hátt. Með því að fylgjast með notkuninni í rauntíma geta viðskiptavinir Veitna komið auga á tækifæri til að minnka notkun á rafmagni eða heitu vatni. Til dæmis að lækka í ofnunum um leið og von er á hlýju veðri. Þannig má draga úr útgjöldum og hafa í leiðinni jákvæð áhrif á umhverfið.
Snjallmælar gefa mun betri gögn um alla notkun á heitu vatni og rafmagni, og notkun fyrirtækja á köldu vatni. Við sjáum hvernig notkunin breytist milli árstíða, yfir sólarhringinn og milli vikna og mánaða. Einnig verður hægt að skilja enn betur hvaða aðrar breytur hafa áhrif á notkunina, t.d. útihitastig og fleira. Þetta styður við okkar markmið um sjálfbæra nýtingu auðlinda.
Með tilkomu snjallmæla munu Veitur einnig fá upplýsingar um gæði þjónustunnar sem við veitum viðskiptavinum. Við munum til að mynda sjá hitastig vatnsins og þar að auki munu gögnin frá snjallmælunum bæta líkön sem við hjá Veitum nýtum til þess að meta þrýsting hjá viðskiptavinum vatns-og hitaveitu. Með þessum líkönum getum við til dæmis séð hvað mun gerast fram í tímann, t.d. ef það er kuldi í kortunum er hægt að sjá hvort við munum geta veitt heitu vatni til allra okkar viðskiptavina í allra mestu kuldaköstunum.
Ef upp kemur bilun sem veldur vatns-eða rafmagnsleysi munu snjallmælarnir hjálpa okkur að staðsetja vandamálið með skjótum hætti. Það þýðir að okkar viðbragð við slíkum truflunum á rekstrinum verður skjótara og þar með verður viðgerð lokið fyrr en ella. Þannig geta snjallmælarnir sparað tíma og minnkað óþægindi viðskiptavina vegna óvæntra bilana.
Við viljum tryggja að komandi kynslóðir hafi sama aðgang að orkunni og þessum dýrmætu lífsgæðum sem við búum við í dag. Gögn úr snjallmælum hjálpa Veitum að spá betur fyrir um hversu mikið heitt vatn og rafmagn viðskiptavinir okkar þurfa og styðja við ábyrga og sjálfbæra nýtingu auðlindanna
Snjallmælar eru meira en tækninýjung; þeir eru lykilatriði í að auðvelda okkur að nýta orkuna á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Með því að veita viðskiptavinum okkar nákvæmar upplýsingar um eigin orkunotkun, opnum við leiðir til að taka meðvitaðar ákvarðanir sem ekki aðeins lækka kostnað heldur stuðla að sjálfbærari nýtingu. Það er grundvallaratriði í að tryggja að framtíðarkynslóðir geti notið sömu lífsgæða og við gerum í dag. Því er mikilvægt að við, sem samfélag, nýtum þá tækni sem er í boði til að stefna að sjálfbærri framtíð.
Orkuveitan og dótturfélagið Veitur hafa samþykkt samninga við North Tech Drilling ehf. og ítalska fyrirtækið Hydro Drilling S.R.L. um borun allt að 35 jarðhitahola í kjölfar útboðs fyrirtækjanna sem fram fór í ágúst 2024.
Veitur og Reykjavíkurborg stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025, í nóvember síðastliðnum.