Veitur, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, lögreglan, fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, starfsfólk Almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins og fleiri tóku þátt í æfingunni sem var mjög mikilvæg til að samhæfa aðgerðir, viðbrögð og samskipti þegar hættustig skapast.
Sviðsmynd æfingarinnar var að mengun hefði borist í neysluvatn eftir bílslys í Heiðmörk, ökumaðurinn hefði stungið af og olía borist í vatnsból. Afleiðingarnar voru alvarlegar og var íbúum í Reykjavík og á Seltjarnarnesi meinað að drekka vatnið úr krönunum í langan tíma.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri og framkvæmdarstjóri Almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins sagði í viðtali í fréttum RÚV að markmið æfingarinnar væri að sjá hvernig kerfið myndi bregðast við slíkum ógnum og þessi sviðsmynd væri alls ekki fjarstæðukennd. Það þyrfti að geta brugðist við og mikilvægt að fínslípa viðbrögðin.
Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna segir að Veitur vilji sýna fulla ábyrgð og æfa svona stórslys í þaula. „Æfingin gerði ráð fyrir að olíumengun myndi loka Gvendarbrunnum í marga mánuði með mörgum ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir samfélag og atvinnulíf. Það er mikilvægt að samhæfa viðbrögð og aðgerðir, en ekki síður að efla forvarnir til að koma í veg fyrir mengun í dýrmætu vatnsbólunum okkar og vernda ómissandi innviði eins og hægt er.“
Meðfylgjandi eru myndir frá æfingunni sem var vel heppnuð og lærdómsrík og var samvinna höfð í fyrirrúmi.