Endur­nýjun fráveitu Veitna við Ingólfs­stræti

Veitur munu þann 27. mars næstkomandi hefja endurnýjun á búnaði í dælustöð fráveitu við Ingólfsstræti í Reykjavík.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar muni standa yfir í tæpa viku. Á meðan á framkvæmdum stendur þarf að taka dælustöðina úr rekstri, sem þýðir að losa þarf óhreinsað skólp í sjó á framkvæmdatímanum. Óhreinsað skólp og rusl getur því verið sjáanlegt fólki á svæðinu á þessum tíma og er fólki bent á að fara ekki í fjöru í nágrenni stöðvarinnar á meðan á þessu stendur. Veitur sögðu frá yfirgripsmikilli endurnýjun búnaðar í fráveitu Veitna vorið 2021 og eru þessar aðgerðir hluti þess verkefnis.

Neyðarlúga í skólpdælustöð fráveitu við Ingólfsstræti verður opnuð til að hægt sé að vinna að endurnýjun búnaðar. Neyðarlúgur eru mikilvægur þáttur í að koma í veg fyrir að við stöðvun komi skólp upp um niðurföll í híbýlum fólks. Þegar neyðarlúgur eru opnaðar vinna Veitur samkvæmt skilgreindu verkferli sem m.a. felur í sér að upplýsa Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og hefja vöktun og hreinsun á ströndinni. 

Rusl á ekki heima í klósettum

Við minnum á nú sem endranær að rusl á ekki að fara í klósettið. Rusl sem hent er í salerni getur endað í sjó ef dælu -og hreinsistöðvar eru ekki virkar. Sjórinn hreinsar lífrænu efnin hratt og  slík mengun varir í skamman tíma. Öðru máli gegnir um rusl , eins og blautklúta, tannþræði, eyrnapinna og dömubindi svo fátt eitt sé nefnt.