Our general terms and conditions are only available in Icelandic.
Hér eru almennir viðskiptaskilmálar Veitna, sem gilda skulu um öll viðskipta- og samningssambönd Veitna og viðskiptavina hennar, nema um annað sé sérstaklega samið.
1. Gildissvið
Veitur kt. 501213-1870, Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík, dreifa rafmagni og heitu vatni og sjá um rekstur vatns og fráveitu fyrir hönd OR – vatns- og fráveitu sf.
Hér á eftir fara almennir viðskiptaskilmálar Veitna, sem gilda skulu um öll viðskipta- og samningssambönd Veitna og viðskiptavina hennar, nema um annað sé sérstaklega samið. Með greiðslu fyrsta reiknings staðfestir viðskiptavinur viðskiptasamband sitt við Veitur og að um það gildi viðskiptaskilmálar Veitna.
2. Aðgengi
Aðgengi Veitna að búnaði og inntaksstað þarf ávallt að vera tryggt og í samræmi við tæknilega tengiskilmála viðkomandi miðils (rafmagn, heitt og kalt vatn) og skilmála Veitna um heimlagnir/tengingar. Viðskiptavinur skal lesa af mælum og skila álestri óski Veitur þess.
3. Verð, greiðsluskilmálar, innheimta, vextir og stöðvun orkuafhendingar.
Viðskiptavinur skal greiða mánaðarlega skv. reikningi í samræmi við verðskrá auk þeirra skatta og gjalda sem Veitum ber að innheimta skv. gildandi lögum hverju sinni. Gjalddagi er 5. dagur þar næsta mánaðar eftir notkunarmánuð vegna fjarmældrar notkunar, en 5. dagur næsta mánaðar eftir notkunarmánuð vegna áætlunar og álesinnar notkunar. Dráttarvextir reiknast af viðskiptaskuldinni frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við lög. Veitur innheimta seðilgjald eða tilkynningar- og greiðslugjald vegna birtingar reikninga. Gjaldið er breytilegt eftir því hvort um er að ræða greiðsluseðla á pappír, greiðslukort eða greiðsla reikninga í netbanka. Veitum er heimilt að stöðva orkuafhendingu til viðskiptavinar, ef viðskiptaskuldin lendir í vanskilum. Veitum er í slíkum tilvikum heimilt að innheimta lokunar- og opnunargjöld hjá viðskiptavini.
4. Uppsögn samnings
Nema um annað sé samið er viðskiptasamband Veitna og almennra viðskiptavina ótímabundið. Viðskiptavinur getur hætt viðskiptum annað hvort með því að annar aðili taki við notkunarstað eða ef notkun er hætt varanlega og notkunarstaður aftengdur.
5. Breytingar á viðskiptaskilmálum
Veitur áskilja sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum. Breytingar á viðskiptaskilmálum taka gildi frá birtingu þeirra á heimasíðu Veitna.
6. Framsal
Réttindi og skyldur samkvæmt viðskiptaskilmálum þessum getur viðskiptavinur ekki framselt, flutt eða falið öðrum án tilkynningar til Veitna.
7. Lausn ágreiningsmála
Komi upp ágreiningur út af viðskiptaskilmálum þessum skulu aðilar leitast við að leysa hann í sátt. Rísi mál út af þeim skal það rekið það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
8. Persónuvernd
Til að uppfylla skyldur sínar skv. skilmálum þessum og lögum samkvæmt vinna Veitur með tilteknar persónuupplýsingar um viðskiptavini, starfsfólk og aðra er eiga samskipti við fyrirtækið. Vinnsla persónuupplýsinga fer fram að því marki sem slíkt vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi og hlutverks fyrirtækisins eins og það er afmarkað í lögum og reglum sem gilda um starfsemina og eða samþykktum um félagið. Að svo miklu leyti sem ekki er kveðið sérstaklega á um vinnslu persónuupplýsinga í skilmálum þessum, hlutaðeigandi lögum og reglum fer um meðferð og vinnslu þeirra samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem og persónuverndarstefnu Veitna sem er aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins.
9. Lög og reglur
Að auki gilda tengiskilmálar Veitna fyrir hverja tengingu fyrir sig.
Að öðru leyti gilda almenn lög og reglur um viðskiptasamband Veitna og viðskiptavina fyrirtækisins auk laga og reglna um þá miðla sem fyrirtækið rekur, svo sem tæknilegir tengiskilmálar.
10. Gildistaka
Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi frá og með birtingu þeirra á heimasíðu Veitna „veitur.is“ þann 1. júní 2022.