Það skiptir okkur í Veitum miklu máli að geta tryggt íbúum og atvinnulífi hreint og heilnæmt neysluvatn á veitusvæðum okkar til langrar framtíðar.
Markvisst er unnið að forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins. Heiðmörk er aðalvatnstökusvæði Veitna fyrir höfuðborgarsvæðið. Vatnsvernd er afmörkuð utan um vatnsbólin. Umferð vélknúinna ökutækja um vegi á vatnsverndarsvæðinu er mikil, byggð hefur færst nær og ýmiss konar starfsemi fer þar fram. Hugmyndir á ýmsu stigi um framkvæmdir á og í nágrenni við svæðið valda okkur áhyggjum. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um mikilvægi varfærnislegrar umgengni um vatnstökusvæðin.
Hreint og gott neysluvatn í nánd við byggð eru auðlind sem ber að vernda með öllum tiltækum ráðum.
Nánari upplýsingar um vatnsvernd.
Um helmingur þessa heita vatns sem Veitur dreifa kemur frá lághitasvæðum. Veitur vinna að því að vatnstaka á lághitasvæðum hverju sinni rýri ekki möguleika á samsvarandi vatnstöku í framtíðinni. Með mælingum á vatnshæð og hitastigi í borholum er fylgst með því hvernig vinnslusvæðin bregðast við nýtingu. Lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt jafnt og þétt og allt bendir til þess að hægt sé að viðhalda þeirri notkun í fyrirsjáanlegri framtíð komi ekkert óvænt upp. Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á. Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli og í Hveragerði.
Vatnsveita: Árlega tekur heilbrigðiseftirlitið sýni úr öllum vatnsveitum Veitna til örverugreiningar skv. neysluvatnsreglugerð.
Rafveita: Árlega eru gerðar spennugæðamælingar til að fylgjast með því að rafdreifikerfi Veitna uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til gæða spennu í reglugerðum og stöðlum.
Fráveita: Tekin eru sýni úr skólphreinsistöðvum, í fjöruborði, við útrásir o.s.frv. í samræmi við sýnatökuáætlun sem Veitur viðhalda byggt á kröfum í starfsleyfisskilyrðum. Frá og með árinu 2022 hafa Veitur birt sýnatökuáætlanir í árlegum yfirlitsskýrslum sýnataka og -greininga fráveitunnar sem aðgengilegar eru hér.
Hitaveita: Veitur tryggja íbúum á dreifisvæðinu vatn til upphitunar af þeim gæðum sem samræmast skilgreiningum fyrirtækisins og ákvæðum í lögum og reglugerðum.
Það færist sífellt í aukana að óskað sé eftir umhverfisvottun fasteigna. Með hertum kröfum og aukinni vitund um mikilvægi sjálfbærrar uppbyggingar leitast bæði fyrirtæki og einstaklingar við að velja vistvæna orkjugjafa. Vottunarkerfi eins og BREEAM leggja áherslu á umhverfisvæna orkunotkun bygginga.
Heitavatnsframleiðsla Veitna kemur að öllu leiti frá jarðvarma, í framleiðsluferlum er enn fremur engin losun nituroxíða (NOx). Þar sem Veitur eru dreifiaðili rafmagns þurfa notendur að afla staðfestingar vegna raforkunotkunar frá sínum raforkusala.
Hér má nálgast staðfestingu Veitna á uppruna heita vatnsins sem og staðfestingu á að engin losun verður á NOx í framleiðslunni.
Áhersla er lögð á veitukerfin og aðlögun að meiri úrkomuákefð, leysingum, breytingum á hitastigi og sjávarborðshækkun. Í því sambandi fylgist vatnsveitan með örverumengun í neysluvatni í rauntíma þannig að unnt sé að bregðast við og tryggja gæði þess. Ennfremur leggur hitaveitan mat á eftirspurn eftir heitu vatni til framtíðar og bætta nýtingu þess til að tryggja afhendingaröryggi. Í fráveitunni er horft til spár um sjávarborðshækkun í áætlanagerð. Auk þess er horft til blágrænna ofanvatnslausna til að miðla og hreinsa regnvatn af götum og vegum, áður en það rennur út í ár og vötn, aðgerð sem einnig eykur líffræðilegan fjölbreytileika og bætir borgarumhverfi.
Þessi verkefni eru í senn mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna loftslagsvár. Veitur vinna að innleiðingu þeirra í samstarfi við sveitarfélög.
Kolefnisspor reksturs Veitna er reiknað út frá 5 losunarflokkum, þ.e. losun vegna bruna eldsneytis í bílaflota Veitna, samgöngur starfsfólks til og frá vinnu, losun vegna úrgangs, losun vegna flugferða í vinnu, og losun vegna framkvæmdarvinnu verktaka.
Viðskiptavinir Veitna geta reiknað út kolefnisspor sitt vegna notkunar á heitu vatni og dreifingar rafmagns. Í töflunni hér að neðan eru umreiknistuðlar fyrir viðskiptavini Veitna sem vilja áætla kolefnisspor sitt vegna orkukaupa. Þetta kolefnisspor samsvarar umföngum 2 og 3 í GHG protocol.
Fyrir hverja einingu (rúmmetra (m3)) af heitu vatni sem keyptur er losnar CO2 ígildi viðmiðunartölunnar fyrir viðkomandi ár.
Fyrir hverja einingu (kílóvattstund (kWh)) af rafmagni sem flutt er losnar CO2 ígildi viðmiðunartölunnar fyrir viðkomandi ár.
Ár | Vegna kaupa á heitu vatni hjá Veitum (Umfang 2) | Vegna rafmagnsdreifingar í byggð (Umfang 3) |
---|---|---|
2016 | 244,7 | 0,4 |
2017 | 185,2 | 0,3 |
2018 | 207,6 | 0,3 |
2019 | 216,0 | 0,3 |
2020 | 213,4 | 0,3 |
2021 | 216,2 | 0,3 |
2022 | 231,3 | 0,3 |
2023 | 205,2 | 0,3 |
Eining | gCO2-ígildi/m3 | gCO2-ígildi/kWh |