Hollráð um heitt vatn

Njótum þess að hlýja okkur. Heita vatnið okkar er auðlind sem við eigum öll saman. Þegar kalt er úti skiptir máli að nýta heita vatnið vel.

Hitum skynsamlega

Heimilisnotkun á heitu vatni er að langstærstum hluta húshitun, eða um 90%. Til að nýta vatnið skynsamlega er því lykilatriði að kerfið sem notað er til halda hita á húsnæðinu sé í lagi og rétt stillt.  

Best er að ofnar hafi lofthitastýrða ofnloka, en það þýðir að lítið mælitæki er í hitastillingum á ofninum. Hann er sjaldnast sýnilegur en mælir hitastigið í herberginu og stillir ofninn eftir því. Þegar kalt er í veðri ættu lofthitastýrðir ofnar að taka við sér og hita herbergið eftir þörfum. Það ætti því ekki að þurfa að hækka á ofnunum til að stýra hitanum innanhúss. Yfirleitt er óþarfi að stilla ofna á hærri stillingu en miðju stillingu, sem er 2-3 á flestum hitastillum. Ef ofnar bregðast ekki við hitabreytingum í herbergi væri sniðugt að láta pípara kíkja á kerfið.  

Því hærri sem stillingin á ofninum er, því meira vatn fer í gegnum hann. Þumalputtareglan fyrir ofna er sú að ef þeir eru heitari en líkamshiti neðst þá eru þeir of hátt stilltir eða jafnvel of litlir fyrir rýmið sem þeir hita. 

Í kuldatíð er vatnið heitara en ella og þá geta ofnar sem eru á hæstu stillingu orðið hættulega heitir.  

Í herbergjum/rýmum þar sem mikið loftar um á stuttum tíma, t.d. í forstofu og við svalahurð, eru stundum ofnar sem stýrast af hita á vatninu sem fer út af ofninum í stað þess að stýrast af lofthita (bakrásarstýrðir ofnar). Þannig er komið í veg fyrir að ofninn fari á fullt þegar dyr eru opnaðar. Á slíkum ofnum ætti ekki að hafa stillinguna hærri en á 2 til að nýta varmann sem best.  

Ofnar, heimilistæki, persónuvarmi og sólargeislun hafa áhrif á hita í rýminu. Grafísk mynd.

Einfaldar aðgerðir heima við 

Þegar húsgögn, t.d. sófi eða gardínur, eru beint fyrir framan ofn þá hitnar loftið í rýminu á milli sófa og ofns og hitaskynjarinn mælir eingöngu hitastigið þar, en ekki í herberginu sjálfu. Þess vegna þarf að passa að loft leiki um hitaskynjarann og færa húsgögn og gardínur fjær ofnum til að hitinn nái að flæða um herbergið og nýtast vel.  

Hitinn leitar upp. Opinn gluggi beint fyrir ofan ofn hleypir hitanum út í stað þess að hita herbergið. Það er nauðsynlegt að lofta vel út stundum en það nýtir heita vatnið illa að hleypa hitanum beint út um glugga sem er stöðugt opinn.  

Ef ofn er mjög heitur neðst (heitari en líkamshiti) þá er líklegt að hann sé annað hvort of hátt stilltur eða of lítill fyrir rýmið sem hann á að hita. 

Ef ofninn hitnar ekki þó stillingu sé breytt þá getur pinninn í hitastillinum verið fastur. Þá er hægt að taka hitastillinn af (toga upp/toga að sér) og ýta aðeins við pinnanum til að liðka hann. Ef það virkar ekki þarf þó að hafa samband við pípara. Ýmis gagnleg myndbönd eru til á netinu um hvernig er best að gera þetta.  

Fagmaður stillir ofn - grafísk mynd

Hvað þarft þú að skoða betur? 

Hitastig og hljóð í ofnum

Ofnar sem suða nýta vatnið illa og þá þarf að yfirfara af pípara. Ástæðan er gjarnan við stillinguna en ekki í ofninum sjálfum. Það borgar sig fljótt upp að láta laga slíkt.  

Handklæðaofnar eru þægilegir en þarf að fylgjast vel með að þeir hitni ekki of mikið því þeir eiga það til að byrja að nýta vatnið illa og hækka reikninginn óþarflega mikið.  

Bank í ofnum er oft vegna lofts inni í þeim og þá virka þeir ekki sem skyldi. Hægt er að losa loftið með því að tappa loftinu af með sérstökum lykli sem til er á flestum heimilum. Tappi til að losa loftið er oftast staðsettur ofarlega á ofninum. Gott er að hafa ílát undir þegar þetta er gert því stundum koma dropar með. 

Þægindin okkar 

Heitir pottar eru nokkuð sem margir líta á sem þessi auka þægindi heima við og í sumarhúsinu. Á kaldasta tíma ársins rýkur þó hitinn hratt burt og nýtist illa. Þá er betra að sleppa pottinum til að nýta takmarkaða auðlindina betur.  

Vel einangraður pottur með góðu loki heldur hitastig pottsins stöðugra en opinn pottur. Ef sírennsli er í pottinum þá er lykilatriði að það sé í takmörkuðu magni.  

Veitur mæla með orkusparandi kerfi fyrir heita potta, hvort sem þeir eru kynntir með hitaveitu eða rafmagni.  

Snjóbræðslukerfi geta þurft mikið heitt vatn og mikilvægt að fylgjast með stýringu þeirra til að þau séu ekki að nota of mikið og hækka reikninginn. Við tökum oft ekki eftir því að heitt vatn renni illa nýtt í gegnum snjóbræðsluna okkar fyrr en reikningurinn fyrir notkuninni kemur.  

Bað eða sturta? 
Að fylla baðkar notar 30 lítrum meira af heitu vatni en sturtan. Það hefur því mjög lítil áhrif á heildarnotkun heimilisins hvort er valið.  

Nánari upplýsingar og viðmið fyrir notkun á heitu vatni íbúðarhúsa eru hér

cookie placeholder

Hvernig getum við aðstoðað þig?