Verkefnið: Hitaveitutankarnir í Grafarholti eru einn af öðrum í viðhaldi að innan og utan. Með viðhaldi er hægt að koma í veg fyrir langvarandi tæringu og skemmdir á tönkunum, en slíkt er bæði öryggismál sem og kostnaðarsamt. Tankarnir eru mikilvægur hluti hitaveitunnar til að tryggja íbúum á höfuðborgarsvæðinu heitt vatn til framtíðar.
Einn tankur í einu er tæmdur, hann hreinsaður að innan og gert við það sem þarf til að koma í veg fyrir bilanir síðar meir. Tankurinn er síðan málaður með sérstakri málningu til að verja hann að innan fyrir tæringu og skemmdum af völdum heita vatnsins.
Vinnu í tönkunum getur fylgt ónæði fyrir íbúa í nágrenninu. Reynt er að halda ónæði í lágmarki með bestu fáanlegu vélum.
Að loknu viðhaldi eru gerðar víðtækar prófanir til að tryggja að vatnið sé eins og við viljum hafa það.
Tímaáætlun: 2023-2027
Verkefnastjóri Veitna: Þórður Ásmundsson
Uppfært 10.9. 2024: Unnið er að viðhaldi á undirstöðum allra tankanna á Grafarholti. Auk þess verður hluti klæðningar lagfærður fyrir veturinn. Gera má ráð fyrir einhverju ónæði af framkvæmdum á þessum mikilvæga hluta hitaveitunnar fyrir höfuðborgarsvæðið.
Uppfært 27.3.2024: Þessa dagana er verið að tæma tanka 1 og 4 og undirbúa fyrir viðhald. Það hefst fljótlega eftir páska. Auk þess verður grafinn skurður á svæðinu til að endurnýja lagnir. Vinna mun standa yfir fram á haust til að tankarnir verði tilbúnir fyrir notkun veturinn 2024-25.
Uppfært 21.12.2023: Viðhaldi á tanki 6 er lokið og verið að hleypa heitu vatni á hann. Prófanir á vatninu hafa sýnt að vatnið er eðlilegt. Frekari prófanir verða gerðar næstu daga áður en tankurinn verður tekinn í notkun.