Nýting jarð­hita í Hvera­gerði og áhrif á Varmá

Veitur bæta orkunýtingu með nýjum búnaði og minnka losun.

Hitaveitan í Hveragerði nýtir vatn og gufu frá mjög heitum borholum í bænum. Hluti gufunnar fer í gufuveituna sem er nýtt í iðnað í Hveragerði. Heita vatnið sem kemur úr holunum er nýtt í svokallað tvöfalt kerfi sem hitar og endurhitar heitt vatn sem rennur um bæinn. Vatnið úr borholunum sem nýtt er til að hita hringrásarvatnið rennur eftir notkun í stokk þar sem það blandast yfirborðsvatni, þ.m.t. læk sem áður rann í bænum og kólnar þar áður en það fellur í Varmá.

Jarðhitavökvinn frá borholum nýtist til að hita vatnið að ásættanlegu hitastigi fyrir húshitun í Hveragerði. Hann fer í gegnum varmaskipta og kólnar við það. Veitur eru að skipta gömlum varmaskiptum út fyrir nýja varmaskipta sem nýta orkuna í jarðhitavökvanum mun betur. Gamli búnaðurinn skilaði jarðhitavökvanum frá sér um 80°C heitum en nýju varmaskiptarnir skila vatninu frá sér um 40°C heitu.

Nýir varmaskiptar og bætt orkunýting

Nýju varmaskiptarnir nýta með þessum hætti orkuna betur en þeir gömlu og þurfa þar af leiðandi minna magn af jarðhitavökva til að ná sama afli. Það þýðir bæði lægra hitastig og minna magn af vatni sem fer frá varmastöðinni. Þegar öllum varmaskiptunum hefur verið skipt út munu um 27 l/s (sekúndulítrar) af 40°C heitu vatni fara í stokkinn í stað 40 l/s af 80°C heitu vatni. Það er miðað við hámarksnotkun sem er þegar kalt er úti, eins og t.d. við -5°C eða kaldara.

Ný og betri tækni dregur þannig úr losun, en nýtir jarðhitann enn betur og stuðlar að sjálfbærari notkun. Veitur eru jafnframt að skoða hvort hægt sé að veita jarðhitavökvanum frá varmastöðinni, eftir notkun þar, niður í borholu sem hætt er að nota og halda þannig vatnsborðinu á svæðinu við.

Aðrar borholur á svæðinu

Veitur nýta tvær borholur í landi Ölfuss í mynni Ölfusdals. Þær þjóna bæði gufuveitunni í Hveragerði og öðrum notendum, en jarðhitavökvinn þaðan fer ekki í varmastöðina í Bláskógum.

Veitur eru að skoða hvernig hægt er að breyta rekstri þessara holna til að takmarka það magn sem losað er þaðan í Varmá. Þar til lausnin finnst fara um 40 l/s í ánna frá þessum holum. Það vatn fer um 80°C heitt frá holunum, blandast lækjum og öðru yfirborðsvatni og kólnar þar verulega á leiðinni að Varmá.

Tímabundin losun í Varmá vegna borunar á nýrri holu

Í lok nóvember hófu Veitur borun á nýrri holu í Hveragarðinum til að nýta fyrir hitaveituna í Hveragerði. Borinn þarf kalt vatn til að virka og það kemur um bráðabirgðalögn frá Varmá. Vatnið sem notað er við borunina er síðan losað aftur í Varmá, um sama stokk og kælt jarðhitavatn frá varmastöðinni. Gerðar eru ráðstafanir til að fanga sem mest af grugginu úr vatninu áður en það er losað í stokkinn en það er þó mögulegt að einhver hluti af allra fínasta efninu berist alla leið í ána. Veitur hafa upplýst íbúa í Hveragerði að þau gætu orðið vör við litabreytingu í ánni meðan. Það skal áréttað að þetta fínefni sem gæti borist með þessum hætti í ána er bergmylsna sem er ekki skaðlegri en annað grugg sem kemur í ána, t.d. í leysingum eða stórrigningum.

Þegar borinn fer á meira dýpi er notuð umhverfisvæn og skaðlaus sápa sem gæti haft þau áhrif að Varmá virðist freyða. Veitur fylgjast vel með ánni úr lofti og á jörðu niðri og nánar má fræðast um það hér.

Ný hola boruð í Hveragarðinum í desember 2025

Tölulegar staðreyndir

Nýir varmaskiptar losa 27,5 l/s af40°C heitum jarðhitavökva, en þeir gömlu 40l/s af 80°C heitum vökva. Varmalosun í Varmá frá varmaskiptistöðinni við Bláskóga minnkar því um meira en helming, eða úr 13 MW í 5 MW með þeim nýju.