Bókin CLOACINA – Saga fráveitu er komin út á vegum Veitna. Þar rekur Guðjón Friðriksson sagnfræðingur skólpsögu höfuðborgarinnar síðustu liðlega 100 árin.
Cloacina, sem við fáum hið alþjóðlega heiti klóaksins af, var rómversk gyðja sem ríkti yfir helsta skólpræsi borgarinnar eilífu. Hún var gyðja hreinlætis. Það var andans fólk af aðeins öðru tagi sem lét leggja fyrstu skólplögnina í Reykjavík. Nunnurnar í Landakoti fengu Knud Zimsen til að leggja skólplögn ofan af hæðinni niður Ægisgötuna og í sjó fram. Það var nokkrum árum áður en þessi ungi verkfræðingur var orðinn borgarstjóri í Reykjavík og skrúfaði frá brunahana við Laugaveginn og markaði þar með upphaf vatnsveitu í Reykjavík. Skipuleg fráveita er að þessu leyti eldri en vatnsveitan.
Í þessari bók er saga fráveitu Veitna í Reykjavík og aðkoma fyrirtækisins að samskonar rekstri á Akranesi og í Borgarbyggð rakin. Áður hafa verið gefnar út sögur vatnsveitu, rafveitu og hitaveitu í borginni. Saga fráveitunnar, sem tekið hefur gríðarlegum framförum síðustu öldina, var útundan þar til nú.
Höfundur bókarinnar er Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og rithöfundur, sem á mikinn þátt í að halda sögu höfuðborgarinnar til haga. Hann var einn ritstjóra sögu Reykjavíkur, hefur skráð sögu margra húsa í bænum og nú nýverið sögu Faxaflóahafna. Honum er einkar lagið að færa okkur fortíðina á lipru máli og lifandi frásögn hans prýða margar sjaldséðar ljósmyndir sem skila okkur ilminum af þessari merku sögu.
Myndin að ofan sýnir málverk Mayers af Aðalstræti frá 1836. Opið ræsi og brunnur við hliðina.
Á myndinni að ofan má sjá málverk Aage Nielsen-Edwin af læknum í Reykjavík árið 1820. Þegar byggðin jókst varð Lækurinn, sem enn rennur undir Lækjargötu, að skólprennu.
Hér má lesa Cloacinu sem flettibók (Issuu)
Einnig er hægt að skoða Cloacinu í PDF formi með því að smella á hlekkinn hér að neðan.